Serbar fjarlægja vegatálma í Kósovó

Vegatálminn var settur upp af Serbum þann 10. desember en …
Vegatálminn var settur upp af Serbum þann 10. desember en verður nú fjarlægður. AFP

Svo virðist sem spennan á milli Serbíu og Kósovó hafi minnkað örlítið en Serbía ákvað í dag að fjarlægja vegatálma sem Serbar í norðurhluta Kósovó settu upp við landamæri landanna þann 10. desember.

Fréttastofa BBC greinir frá þessu. 

Serbar búsettir í Kósovó settu upp vegatálmana til að mót­mæla hand­töku fyrr­ver­andi lögregluþjóns sem var grunaður um að hafa tengst árás á lög­regluþjóna af al­bönsk­um upp­runa. Serbneska lögregluþjóninum var sleppt úr haldi í gær.

Áttu fund með forseta Serbíu

Ákvörðun um að taka niður vegatálmann var tekin eftir að serbneskir mótmælendur áttu fund með forseta Serbíu Aleksandar Vucic.

Tilkynnt er um ákvörðunina aðeins nokkrum dögum eftir að her Serbíu lýsti yfir að hersveitir væru í hæstu viðbragðsstöðu. 

Kósovó sem er að mestu af albönskum uppruna skildi sig frá Serbíu árið 1998 og lýsti yfir sjálfstæði árið 2008. Allar götur síðan hefur spennan á milli ríkjanna farið vaxandi. Serbía viðurkennir ekki sjálfstæði Kósovó og Serbar í Kósovó gera það ekki heldur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka