Herlið Serbíu safnast saman við landamærin

Yfirvöld í Serbíu hafa fordæmt viðveru lögreglu í norðurhluta Kósovó. …
Yfirvöld í Serbíu hafa fordæmt viðveru lögreglu í norðurhluta Kósovó. Í bakgrunni myndarinnar má sjá serbneska fánann en myndin er tekin í borginni Mitrovica í Kósovó. AFP

Stjórnvöld í Bandaríkjunum hvetja Serbíu til að draga til baka herlið sitt sem er nú staðsett við landamæri Kósovó. Stjórnvöld í Bandaríkjunum greindu frá því í gær að fordæmalaus fjöldi vopnaðra hermanna hafi safnast saman við landamærin og töluverður fjöldi skriðdreka.

Atlantshafsbandalagið (NATO) hefur einnig tilkynnt að það sé undirbúið að fjölga friðarliðum í Kósovó.

Þetta kemur í kjölfar þess að einn lögreglumaður var myrtur og annar særðist í skotárás í norðurhluta Kósovó á sunnudaginn, þar sem serbneskir árásamenn réðust að lögreglumönnum á svæðinu. Mikil átök gengu yfir í nokkra klukkutíma og var bæði skotvopnum og sprengjum beitt. Árásamennirnir voru síðar umkringdir í klaustri í grennd við landamæri Kósovó og Serbíu en þrír serbneskir árásamenn hlutu bana af. 

Nokkur hundruð skotvopn

Mikil spenna hefur verið á milli Serbíu og Kósovó frá því að stríðinu á Balkanskaga lauk fyrir um 20 árum en spennan hefur vaxið töluvert undanfarið ár. Kósovó lýsti einhliða yfir sjálfstæði frá Serbíu árið 2008 en margir Serbar í Kósovó hafa hafnað sjálfstæði Kósovó og vilja enn vera hluti af Serbíu. Nú virðist vera enn lengra í að sátt náist á milli Kósovó og Serbíu en áður.

Þrír meintir árásamenn eru nú í haldi lögreglu í Kósovó en lögreglan hefur jafnframt lagt hald á fjölda skotvopna sem yfirvöld segja að telji á nokkur hundruð. Í gær fór fram víðtæk aðgerð lögreglu í Kósovó í norðurhluta landsins þar sem ýmis hús og aðrar fasteignir voru rannsakaðar. Húsin eru í eigu manns sem er grunaður um að hafa skipulagt árásina á föstudaginn.

Yfirvöld í Serbíu fordæmdu aðgerðina tafarlaust og var aðgerðin sögð grimmileg og merki um óhóflega valdbeitingu. Rússar hafa kennt stjórnvöldum í Kósovó um átökin sem áttu sér stað á sunnudaginn. Rússneska utanríkisráðuneytið hélt því fram á mánudaginn að blóðsúthellingarnar væru bein afleiðing af leið Albin Kurti, forsætisráðherra Kosóvo, í deilunum við Serbíu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert