Tölvuþrjótar hrella Rússa

Tilkynningum um yfirvofandi loftárásir var út- og sjónvarpað víða í …
Tilkynningum um yfirvofandi loftárásir var út- og sjónvarpað víða í Rússlandi. Rússnesk stjórnvöld segja ekkert hæft í þessum tilkynningum sem tölvuþrjótar beri ábyrgð á. AFP

Rússnesk stjórnvöld greindu frá því í dag að tölvuþrjótar hefðu náð að birta tilkynningar um yfirvofandi loftárásir í gegnum nokkrar sjónvarps- og útvarpsstöðvar í landinu. 

Slíkar viðvararnir eru algengar í Úkraínu vegna innrásar Rússa, en áhrif stríðsrekstursins eru aftur á móti mun takmarkaðri í Rússlandi, nema þó helst á þeim svæðum sem liggja næst Úkraínu. 

Neyðarráðuneyti Rússlands segir að tölvuþrjótar hafi brotið sér leið inn í tölvukerfi stöðvanna og náð að senda út slíkar viðvaranir um yfirvofandi loftárásir. Ráðuneytið tekur fram að þær eigi enga stoð í raunveruleikanum. 

Fram kemur í rússneskum fjölmiðlum að tilkynningunum hafi verið út- og sjónvarpað í héruðunum Belgorod og Voronezh, sem liggja að Úkraínu. Einnig í nágrenni við Moskvu og St. Pétursborg, sem og á Krímskaga, sem Rússar innlimuðu árið 2014. 

Ráðuneytið segir enn fremur að svipuð tölvuárás hefði verið gerð í liðinni viku sem leiddi til þess að loftvarnaflautur ómuðu um tíma víða í Rússlandi. 

Árásirnar beindust einvörðungu að einkareknum útvarps- og sjónvarpsstöðvum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert