Segir átökin geta breiðst út fyrir landamærin

Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna.
Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna. AFP/Ed Jones

Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, varaði við því að vopnuð átök í Kartúm, höfuðborg Súdan, gætu breiðst út fyrir landamæri Afríkuríkisins. Þetta kom fram í máli hans er hann ávarpaði fund Öryggisráðs SÞ í dag. 

Minnst 427 hafa látið lífið og um fjögur þúsund særst í vopnuðu átökum milli hers Súdan og uppreisnarhers RSF sem hófust þann 15. apríl.

„Ofbeldið verður að taka enda,“ sagði Guterres sem kveðst vera í stöðugum samskiptum við stríðandi fylkingar. Hefur hann kallað eftir því að vopnahlé verði gert á átökunum og að fulltrúar fylkinganna setjist aftur við samningaborðið.

Ætla ekki að yfirgefa Súdan

Volker Pert­hes, sér­stak­ur full­trúi SÞ í Súd­an mun vera um kyrrt þrátt fyrir fjöldaflótta erlendra ríkisborgara úr landinu. Á fundi Öryggisráðsins sagði Guterres það alveg á hreinu að Sameinuðu þjóðirnar ætluðu ekki að yfirgefa Súdan.

„Við erum skuldbundin íbúum Súdan, við styðjum óskir þeirra um friðsamlega og örugga framtíð. Við stöndum með þeim á þessum hræðilegu tímum,“ bætti hann við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert