Vopna­hlé hefjist á milli her­liðanna tveggja á morgun

Dökkir reykmekkir hafa verið algeng sjón síðan átökin hófust í …
Dökkir reykmekkir hafa verið algeng sjón síðan átökin hófust í höfuðborg Súdan, Kartúm. AFP

Vonast er til þess að vopnahlé sem samið hafi verið um á milli súdanska hersins og uppreisnarhers RSF muni fram ganga á morgun. Utanríkisráðherra Bandaríkjanna segir vopnahléið afrakstur erfiðra samningaviðræðna síðustu daga. 

„Bandaríkin hvetja súdanska herinn og herlið RSF til þess að virða vopnahléið á meðan á því stendur. Til þess að styðja við varanleg lok átaka munu Bandaríkin samstilla sig með staðbundnum og alþjóðlegum samstarfsaðilum,“ hefur Reuters eftir Anthony Blinken utanríkisráðherra Bandaríkjanna. 

Í umfjölluninni kemur fram að herliðin tvö hafi ekki virt vopnahlé hingað til en vonast sé til þess að 72 tíma hléið, sem samið hafi verið um, haldi. 

Átökin gætu teygt sig verulega langt 

Meira en fjögur hundruð manns hafa látið lífið í átökunum sem hófust í Súdan þann 15. apríl og þúsundir særst. 

Ríki heimsins hafa keppst við að koma ríkisborgurum sínum úr landinu og hafa tugþúsundir íbúar nágrannalanda haldið á flótta. 

Á fundi Örygg­is­ráðs Sameinuðu þjóðanna í dag sagði Antonio Guterres, fram­kvæmda­stjóri Sam­einuðu þjóðanna, það al­veg á hreinu að Sam­einuðu þjóðirn­ar ætluðu ekki að yf­ir­gefa Súd­an.

„Við erum skuld­bund­in íbú­um Súd­an. Við styðjum ósk­ir þeirra um friðsam­lega og ör­ugga framtíð. Við stönd­um með þeim á þess­um hræðilegu tím­um“. 

Þá sagði hann átökin geta reynst verulega eyðileggjandi fyrir allt landsvæði nærri Súdan en angar átakanna gætu teygt sig enn lengra.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert