Josep Borrell, utanríkismálastjóri ESB, hvatti leiðtoga Kósovó og Serbíu til að draga tafarlaust úr spennu á milli ríkjanna í dag. Þá sagði hann átökin í Norður-Kósovó „algjörlega óviðunandi“.
Um 30 friðargæsluliðar á vegum NATO særðust í gær er þeir lentu í átökum við serbneska mótmælendur sem kröfðust þess að nýkjörnir bæjarstjórar af albönskum uppruna yrðu fjarlægðir úr embætti.
Borell hefur rætt við Albin Kurti, forsætisráðherra Kósovó, og Alexander Vucic, forseta Serbíu, og sagði þeim að koma í veg fyrir frekari átök.
„Ég bað leiðtogana að grípa strax til aðgerða til þess að draga úr spennu.“
Borrell sagði að yfirvöld í Kósovó þyrftu að stöðva aðgerðir lögreglu sem beinast að opinberum byggingum í Norður-Kósovó og að serbneskir mótmælendur ættu að hætta aðgerðum sínum.
Þá sagði hann að ESB væri að ræða mögulegar aðgerðir ef átökunum linnir ekki.
Kósovó lýsti einhliða yfir sjálfstæði frá Serbíu árið 2008. Serbar í Kósovó, sérstaklega í norðri, hafa hafnað sjálfstæði Kósovó frá Serbíu. Það hafa þeir gert meðal annars með því að taka ekki þátt í kosningum en í nýliðnum sveitarstjórnarkosningum var kjörsókn í sumum bæjum í norðurhluta landsins undir 3,5%. Þar sem kosningaþátttaka var ekki mikil náðu Albanir stjórn á sveitarstjórnum.