Noregur beitir Meta dagsektum

Mark Zuckerberg, forstjóri Meta, móðurfyrirtækis Facebook og Instagram.
Mark Zuckerberg, forstjóri Meta, móðurfyrirtækis Facebook og Instagram. AFP

Persónuverndarstofnun Noregs hefur ákveðið að sekta Meta, móðurfyrirtæki Facebook og Instagram, um milljón norskar krónur á dag, eða því sem nemur rúmlega þrettán milljónum íslenskra króna, frá og með 14. ágúst.

Er það gert vegna gagnasöfnunar fyrirtækisins á persónuupplýsingum og um hegðun notenda í von um að selja þeim auglýsingar. Stofnunin, Datatilsynet, tilkynnti um bannið þann 17. júlí og gaf Meta frest til þess að bregðast við, sem rann út þann 4. ágúst. 

Banna hegðunarmiðaðar auglýsingar

Tobias Judin, yfirmaður alþjóðadeildar hjá Datatilsynet, segir sektina samræmast ákvörðun sem tekin var þann 14. júlí en þá lagði hún bann við hegðunarmiðuðum auglýsingum á Facebook og Instagram. 

„Hegðunarmiðaðar auglýsingar hjá Meta fela í sér grófa aðför að einkalífi notenda og rýrir rétt þeirra til persónuverndar og einkalífs,“ sagði hann í skriflegu svari til AFP og bætti við að margir viðkvæmir hópar nýti sér miðlana, þar á meðal ungt fólk, eldri borgarar og fólk með þroskahamlanir.

Hættulegt fyrir viðkvæma hópa

„Við höfum líka áhyggjur af því að viðkvæmar persónuupplýsingar séu notaðar í þeim tilgangi að selja auglýsingar. Þess vegna höfum við komist að þeirri niðurstöðu að auglýsingaherferðir Meta brjóti gegn persónuverndarlögum.“

„Við sektum Meta vegna þess að fyrirtækið hefur ekki fylgt banni okkar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert