Skoða gjaldtöku á tæknirisa

Lilja Alfreðsdóttir, menningar og viðskiptaráðherra.
Lilja Alfreðsdóttir, menningar og viðskiptaráðherra.

Stutt er í að starfshópur á vegum menningar- og viðskiptaráðuneytisins skili af sér hugmyndum um gjaldtöku á erlenda samfélagsmiðla, streymisveitur og fjölmiðlaveitur sem veita myndefni eftir pöntun. 

Lilja Alfreðsdóttir, menningar og viðskiptaráðherra, bar málið upp á ríkisstjórnarfundi í gær.

Fréttum er gjarnan deilt á samfélagsmiðlum, svo sem Facebook og X. Hafa lönd á borð við Ástralíu og Kanada þegar hafið gjaldtöku vegna deilinga frétta í gegnum Facebook.

Ólíkt tekið á reglunum milli landa

Meta, móðurfyrirtæki Facebook og Instagram, hefur þó tekið ólíkt á reglum um gjaldtöku í löndunum tveimur.

Þannig bannaði Meta allar deilingar á fréttum í Ástralíu í sex daga en í kjölfarið náðust samningar um löggjöfina. Þessir samningar hafa skilað þarlendum fjölmiðlum 19,6 milljörðum króna frá því reglurnar tóku gildi frá því í maí á síðasta ári. 

„Ef við horfum til Íslands þá samsvarar þetta sér í um 30% af ritstjórnarkostnaði og þetta eru því risavaxnir hagsmunir,“ segir Lilja. 

Meiriháttar samdráttur í Kanada

Í Kanada voru samþykkt sambærileg lög um gjaldtöku en málið fór í annan farveg. Þar ákvað Meta aftur á móti að loka á deilingar frétta í gegnum Facebook eftir lagasetninguna og stendur það bann enn.

„Ákvörðun Meta hefur leitt til þess að meiriháttar samdráttur hefur verið í fréttalestri í Kanada,“ segir Lilja sem kynnt hefur sér málið vel og hélt erindi og sótti fyrirlestur í Columbia-háskóla í New York-borg í september.

„Þetta er ekki á vísan að róa í þessu. Við getum gert þetta en það getur líka leitt til þess að við megum ekki lengur deila íslenskum fréttum á Meta,“ segir Lilja. 

Facebook-notkun er sambærileg á Íslandi og í Kanada og að sögn Lilju á eftir að koma reynsla á það hvaða áhrif þetta hefur á notkun á Facebook í Kanada.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert