Bann við leigu á rafhlaupahjólum tekur gildi í Parísa, höfuðborg Frakklands, á morgun, en borgin var á meðal fyrstu borga Evrópu til að heimila rafhlaupahjól á deilimarkaði.
Í umfjöllun BBC kemur fram að í kjölfar fjölgunar dauðsfalla í borginni vegna notkunar hjólanna hafi verið efnt til atkvæðagreiðslu meðal borgarbúa í apríl um hvort ætti að leyfa hjólin áfram. Þá studdu 90% að bann yrði lagt við notkun hjólanna, en athygli vekur að kosningaþátttaka var afar dræm, einungis 7,5%.
Samkvæmt heimildum BBC þykir líklegt að slaka kosningaþátttöku megi rekja til þess að þeir fáu sem mættu á kjörstað hafi mestmegnis verið eldra fólk, sem lýst hefur yfir andúð á notkun rafhlaupahjólanna og að öllu jöfnu tekur oftar þátt í kosningum. Þá hafi yngri kjósendur, þeir sem nota hjólin mest, verið líklegri til þess að nýta ekki atkvæðisrétt sinn.
Hjólin hafa verið afar umdeild í Parísarborg frá því þeim var komið fyrir á götum borgarinnar fyrir fimm árum síðan. Undanfarin ár hefur yfirvöldum borist fjöldi kvartana vegna hjóla sem skilin hafa verið eftir á víð og dreif um borgina og voru reglur því hertar árið 2020.
Það hefur þó ekki dugað til, því frá og með morgundeginum tekur bannið gildi og neyðast þá íbúar Parísarborgar til þess að nýta annan fararmáta.