Dómurinn þykir mikil tímamót

Að fara í þungunarrof er ekki lengur glæpur í Mexíkó. …
Að fara í þungunarrof er ekki lengur glæpur í Mexíkó. Barist hefur verið hart fyrir lögleiðingu þess í mörg ár í Mexíkó og er myndin tekin á samkomu árið 2020 þegar þess var krafist. AFP/Ulises Ruiz

Hæstiréttur Mexíkó ákvað í dag, miðvikudag, að lögleiða þungunarrof. Þykir dómurinn mikil tímamót og er hann þvert á þróunina sem hefur átt sér stað í nágrannalandinu, Bandaríkjunum.

Í færslu á samfélagsmiðlum hæstaréttar segir að það „standist ekki stjórnarskrá landsins að dómstólar landsins refsi fyrir þungunarrof því það brjóti gegn mannréttindum kvenna og þeirra sem gengið geta með börn“. 

Ákvörðun hæstaréttar er í takt við hæstaréttardóm sem kveðinn var upp fyrir tveimur árum þar sem niðurstaðan var að þungunarrof væri ekki glæpur. Þá hafði um þriðjungur 32 ríkja Mexíkó þegar samþykkt lög um afglæpavæðingu þungunarrofs.

Þróunin í Mexíkó er varðar réttinn til þungunarrofs er þvert á þróunina í Bandaríkjunum. Á síðasta ári felldi hæstiréttur Bandaríkjanna sögufrægan dóm, Roe gegn Wade, úr gildi en hann tryggði réttinn til þungunarrofs.

Hafði sú ákvörðun meðal annars þau áhrif að konur í Bandaríkjunum ferðuðust yfir til Mexíkó til að fara í þungunarrof á vegum samtaka aðgerðasinna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka