Meta, eigandi samfélagsmiðilsins Facebook, tapaði í dag máli sínu gegn Persónuvernd Noregs, Datatilsynet, fyrir Héraðsdómi Óslóar og var gert að greiða eina milljón norskra króna, jafnvirði 12,5 milljóna íslenskra króna, í dagsektir til Persónuverndar frá 14. ágúst að telja fyrir að fylgjast með netumferð Facebook-notenda og birta þeim auglýsingar sniðnar að henni.
Að auki var Meta gert að greiða 235.200 krónur í sakarkostnað, jafnvirði tæplega þriggja milljóna íslenskra króna, en forsaga málsins er sú að Persónuvernd lagði í júlí bráðabirgðabann við auglýsingum af þessu tagi á Facebook og Instagram þar sem þær teldust skýlaust brot gegn friðhelgi einkalífs notenda.
Úrskurðaði Persónuvernd við sama tækifæri að brot gegn banninu vörðuðu dagsektum er hæfust 14. ágúst og gætu staðið allt að þrjá mánuði. Meta höfðaði þá mál til að fá dagsektunum hnekkt á meðan réttað yrði um löggildi bannsins en lögmenn Meta telja að fara skuli með málið á sama hátt og á Írlandi þar sem viðurkennt er að um lögbrot fyrirtækisins sé að ræða en ekki verði hafðar uppi refsingar gagnvart fyrirtækinu að sinni.
Hefur verið sett upp tímaáætlun með írsku persónuverndinni um hvenær Meta skuli láta af háttsemi sinni en sú tímaáætlun er þó ekki bindandi. Kveðast talsmenn fyrirtækisins þurfa að fá næði til að vinna að málinu og biðja um að þeim verði ekki bannað neitt í millitíðinni.
„Við gleðjumst mjög yfir niðurstöðu réttarins, þetta er stórsigur fyrir friðhelgi einkalífsins,“ er haft eftir Line Coll, forstjóra Persónuverndar Noregs, í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu og Tobias Judin, sviðsstjóri alþjóðasviðs, tekur í sama streng.
„Þetta er nákvæm niðurstaða með notadrjúgum ákvörðunum. Það gleður okkur mjög að dómstóllinn fellst á sjónarmið okkar,“ er haft eftir Judin í fréttatilkynningunni.