Krefjast þess að herliðið yfirgefi landamærin

Fjöldi serbneskra hermanna og skriðdreka hefur safnast saman við landamæri …
Fjöldi serbneskra hermanna og skriðdreka hefur safnast saman við landamæri Kósovó og Serbíu. AFP

Stjórnvöld í Kósovó krefjast þess að Serbía kalli til baka herlið sitt sem hefur safnast saman við sameiginleg landamæri ríkjanna og vara Serbíu við að Kósovó sé reiðubúið að verja landsvæði sitt ef til þess kemur. Aleksandar Vucic, forseti Serbíu, hefur áður lýst því yfir að hann vilji ekki stríð á milli ríkjanna tveggja.

Dagblaðið Guardian greinir frá þessu.

Eins og greint hefur frá hefur umtalsvert herlið Serbíu safnast saman við landamæri Kósovó en það kemur í kjölfar þess að einn lögreglumaður var myrtur og annar særðist í skotárás í norðurhluta Kósovó fyrir viku síðan. Árásamennirnir sem voru serbneskir voru síðar umkringdir í klaustri í grennd við landamærin en þrír serbneskir árásamenn hlutu bana af. 

Serbía hefur sakað lögregluna í Kósovó um óhóflega valdbeitingu gagnvart Serbum sem búa í Kósovó en mikil spenna hefur verið viðvarandi á milli ríkjanna síðan að stríðinu á Balkanskaga lauk fyrir um 20 árum. Margir Serbar í Kósovó hafna sjálfstæði Kósovó en ríkið lýsti yfir sjálfstæði einhliða frá Serbíu árið 2008. Spennan á milli ríkjanna tveggja hefur farið stigvaxandi undanfarið.

Bein ógn gegn ríkinu

Yfirvöld í Kósovó tilkynntu í dag að þau líti á herlið Serbíu við landamærin sem beina ógn gegn Kósovó og krefjast þess að Serbar fjarlægi allar tímabundnar her- og lögreglustöðvar við landamærin sem eru 48 talsins.

Serbía dró til baka hluta herlið síns við landamærin í gær eftir að Bandaríkin hótuðu að beita refsiaðgerðum gegn Serbíu vegna hervæðingu þeirra. Stjórnvöld í Bandaríkjunum greindu frá því í gær að aldrei hafi jafn margir serbneskir hermenn safnast við landamæri Kósovó.

Atlantshafsbandalagið (NATO) er nú þegar með 4.500 friðarliða staðsetta í Kósovó en hefur nú samþykkt fjölga friðarliðum um nokkur hundruð með hermönnum frá Bretlandi. Langt virðist í sátt á milli ríkjanna tveggja en þó nokkru sinnum hefur flosnað upp úr samningaviðræðum á vegum Evrópusambandsins á milli þeirra. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert