Flugvirkjar á vegum Boeing settu hlera rangt upp í farþegaþotu Alaska Airlines sem lenti í því fyrr í þessum mánuði að hlerinn losnaði í miðju flugi.
Bandaríska dagblaðið The Seattle Times greinir frá þessu og vísar í heimildarmenn sem þekkja til málsins.
Bandaríska samgönguöryggisráðið (NTSB) er með málið til skoðunar. Í umfjöllun Times segir að ef NTSB staðfesti þessa niðurstöðu þá þýði það að ábyrgðin á ofangreindu atviki liggi hjá Boeing en ekki hjá fyrirtækinu Spirit AeroSystems, sem setti hlerann upphaflega í vélina sem er af gerðinni 737 MAX 9. Flugvirkjar Boeing tóku svo hlerann af til viðgerðar en settu hann svo upp með röngum hætti, sem fyrr segir.
Hlerinn, sem er notaður til að loka gati í skrokki vélarinnar, sem er stundum hugsaður fyrir neyðarútgang, losnaði í flugi Alaska Airlines sem var að fljúga frá Portland til Kaliforníu 5. janúar.
Boeing hefur verið harðlega gagnrýnt fyrir gæðastjórnun og öryggismál, en fyrirtækið hefur verið undir smásjánni í kjölfar tveggja mannskæðra flugslysa fyrir fimm árum, þegar farþegaþotur af gerðinni 737 MAX fórust.
Óþekktur uppljóstrari birti í síðustu viku upplýsingar á flugvefsíðu sem veittu frekari innsýn um það af hverju hlerinn var fjarlægður og hvernig hann var síðan settur aftur á sinn stað. Uppljóstrarinn virðist hafa aðgang að gögnum Boeing sem varða umrædda þotu Alaska Airlines.
Uppljóstrarinn segir að Boeing greini sjálft frá því hvers vegna hlerinn losnaði í miðju flugi. „Þetta er afskaplega heimskulegt og segir heilmikið um gæðastjórnun á sumum stöðum hjá félaginu.“
Hann segir einnig að gögn Boeing sýni fram á að fjórir boltar, sem eiga að koma í veg fyrir að hlerinn renni af, hafi ekki verið settir á sinn stað þegar Boeing skilaði vélinni.
Rannsakendur NTSB hafa þegar bent opinberlega á þennan möguleika.
Uppljóstrarinn lýsir enn fremur miklum annmörkum hvað varðar gæðastjórnun í verksmiðju Boeing í Renton.