Trump sigrar í New Hampshire

Stuðningsmenn Donalds Trumps fagna í kosningaherbúðum hans á Sheraton-hótelinu í …
Stuðningsmenn Donalds Trumps fagna í kosningaherbúðum hans á Sheraton-hótelinu í Nashua í New Hampshire. Trump hafði betur í forkosningunum, sem þar voru haldnar í gær, þriðjudag. AFP/Chip Somodevilla

Donald Trump bar sigur úr býtum í forkosningunum, sem haldnar voru í New Hampshire í gær, þriðjudag. Fréttaveitan AP greindi frá þessu skömmu eftir að kjörstöðum í ríkinu var lokað klukkan eitt í nótt eða klukkan níu að staðartíma.

Samkvæmt tölum, sem birtar voru í New York Times rétt í þessu, hafði Trump hlotið 53,5% atkvæða og Nikki Haley, keppinautur hans, 45,5% atkvæða þegar 30% atkvæða höfðu verið talin. 

Haley óskaði Trump til hamingju með sigurinn eftir að fréttastofur helstu sjónvarpsstöðvanna höfðu lýst yfir sigri Trumps, en bætti við að hún væri hvergi hætt baráttu sinni til að verða forsetaframbjóðandi Repúblikana í forsetakosningunum, sem haldnar verða í Bandaríkjunum í nóvember.

Trump sigraði fyrir viku í forkosningum í Iowa. Til þessa hefur sigur Repúblikana í fyrstu tvennu forkosningunum í landinu ávallt verið ávísun á útnefningu þess frambjóðanda til framboðs fyrir hönd flokksins.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert