„Leyfðu mér loksins að sjá son minn“

Alexei Navalní lést í fangelsi á föstudaginn.
Alexei Navalní lést í fangelsi á föstudaginn. AFP

Móðir rússneska stjórnarandstæðingsins Alexei Navalnís hvatti í dag Vladimír Pútin, forseta Rússlands, til að sleppa þegar i stað líki sonar síns sem lést í fangelsi á föstudaginn.

Móðir Navalnís heimsótti fanganýlendu norðan við heimskautsbaug þar sem hann lést morguninn eftir að tilkynnt var um andlátið, en var meinað að sjá lík sonar síns.

Lausnin veltur á þér

Júlía Navalnaja, ekkja Navalnís, sem hefur heitið því að halda áfram starfi eiginmanns síns, tók undir ákall tengdamóður sinnar og ítrekaði ásakanir á hendur Pútín vegna dauða Navalnís.

„Ég höfða til þín, Vladimír Pútín. Lausnin á málinu veltur aðeins á þér,“ sagði Ludmila Navalnaja, móðir Navalnís, klædd í svörtu, í myndskeiði sem fjölskylda hennar birti.

„Leyfðu mér loksins að sjá son minn. Ég krefst þess að lík Alexei verði sleppt tafarlaust svo ég geti jarðað hann á mannúðlegan hátt,“ segir móðir stjórnarandstæðingsins.

Fjölskyldu Navalnís hefur verið tjáð að hún fái ekki að sjá lík hans næstu tvær vikurnar.

Rússnesk stjórnvöld hafa vísað á bug ásökunum ekkju Alexeis Navalnís um að Pútín beri ábyrgð á dauða Navalnís.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka