Ekki fórnað í „leik Pútíns“

Boris Pistorius greinir frá stöðu mála á blaðamannafundi í dag …
Boris Pistorius greinir frá stöðu mála á blaðamannafundi í dag og kveður traust gagnvart Þýskalandi óskaddað þrátt fyrir lekann óheppilega. AFP/Tobias Schwarz

Þjóðverjar reyna nú sitt ýtrasta til að gera sem minnst úr leka sem varð til þess að 38 mínútna löng upptaka af samtali þýskra herforingja – að því er talið er – dúkkaði upp á rússneskum samfélagsmiðlum á föstudaginn og mátti ekki heyra betur en að lögð væru á ráðin um flugskeytaárás á Rússland eða rússneskan herafla í Úkraínu.

Bera þýskir ráðamenn því nú við að þarna hafi verið um handvömm að ræða og upptökubúnaður fyrir símtöl verið virkur þegar hann átti ekki að vera það. „Hér urðu alvarleg mistök sem ekki áttu að verða,“ sagði þýski varnarmálaráðherrann Boris Pistorius á blaðamannafundi fyrr í dag.

Kvaðst ráðherra hafa kannað málið hjá bandamönnum Þýskalands til að fullvissa sig um að traust gagnvart landinu væri enn til staðar og svo hafi verið.

Hringdi frá Singapore

Úkraínumenn hafa þrýst á Þjóðverja undanfarið að senda þeim langdræg Taurus-flugskeyti sem hafa allt að 500 kílómetra drægi, en Olaf Scholz kanslari hefur haldið aftur af afhendingu flugskeytanna af ótta við að hún dragi Þýskaland inn í stríðið.

Í símtalinu má heyra herforingjana ræða hugsanleg skotmörk flugskeytanna, þar á meðal brúna yfir Kerch-sundið milli Krímskaga og Krasnódar-héraðsins á meginlandi Rússlands. Hafa rússnesk yfirvöld haldið því fram að samtalið sýni svo óyggjandi sé að vesturveldin hlutist beinlínis til um gang stríðsins.

Talið er að lekinn hafi komið til af því að einn viðmælendanna á símafundi, sem haldinn var gegnum WebEx-samskiptakerfi þýska hersins, hringdi frá flugsýningu í Singapore og fór þá óvarða samskiptaleið inn á fundinn. Þar með hafi einhverjum utanaðkomandi tekist að nálgast upptöku af símtalinu og koma henni í dreifingu.

Boðar Pistorius ítarlega rannsókn á hleruninni eða lekanum en gefur ekkert upp um persónulegar afleiðingar fyrir fundarmenn á símafundinum. „Ég fórna ekki mínum bestu foringjum í leik Pútíns,“ hefur AFP-fréttastofan eftir ráðherra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka