Minnst 93 látnir – 11 handteknir

Tónleikahöllin í ljósum logum. Yfirvöld í Rússlandi segja hryðjuverkamennina hafa …
Tónleikahöllin í ljósum logum. Yfirvöld í Rússlandi segja hryðjuverkamennina hafa kveikt í höllinni áður en þeir hófu skothríðina. AFP/Stringer

Minnst 93 eru látnir og 140 særðir eftir hryðjuverkaárás Ríkis íslams á Crocus City-tónleikahöllina í útjaðri Moskvu í Rússlandi í gærkvöldi.

Yfirvöld í Rússlandi segjast hafa handtekið 11 manns í tengslum við árásina. Árásarmennirnir eru sagðir hafa haft tengiliði í Úkraínu og ætlað sér að flýja yfir landamæri Rússlands til Úkraínu.

Kveiktu í tónleikahöllinni

Rannsóknarnefnd á vegum rússneska ríkisins segir hryðjuverkamennina hafa nýtt sér einhvers konar brennanlegan vökva og kveikt í tónleikahöllinni.

Í kjölfarið hafi þeir hafið skothríð sem varð að minnsta kosti 93 manns að bana. 

Íbúar leggja blóm við minnisvarða í Crocus City degi eftir …
Íbúar leggja blóm við minnisvarða í Crocus City degi eftir árásina. AFP/Stringer

Handtóku ellefu manns

Yfirvöld í Rússlandi segja árásarmennina hafa haft tengiliði í Úkraínu og að í kjölfar hryðjuverkaárásarinnar hafi þeir ætlað sér að flýja yfir landamærin til Úkraínu. 

Þá sögðu yfirvöld að búið væri að handtaka ellefu manns í tengslum við árásina, þar á meðal fjóra hryðjuverkamenn sem eru sagðir hafa framkvæmt hana.

Í yfirlýsingunni segir að búið sé að handtaka „alla fjóra hryðjuverkamennina,“ sem komu með beinum hætti að árásinni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert