Selenskí tjáir sig um ásakanir Pútíns

Volodimír Selenskí Úkraínu­for­seti gagnrýnir rússnesk stjórnvöld harðlega fyrir að tengja …
Volodimír Selenskí Úkraínu­for­seti gagnrýnir rússnesk stjórnvöld harðlega fyrir að tengja Úkraínu við hryðjuverkaárásina í Crocus City-tón­leika­höll­inni á föstudag. Samsett mynd/AFP

Volodimír Selenskí Úkraínu­for­seti sagði Vladimír Pútín Rússlandsforseta og aðra í Moskvu vera „úrþvætti“ fyrir að tengja hryðjuverkaárásina í Crocus City-tón­leika­höll­inni við Úkraínu í daglega ávarpi sínu. 

Pútín sagði í gær að árásarmennirnir hefðu verið á leið til Úkraínu er þeir voru handteknir, en Ríki íslams lýsti yfir ábyrgð á voðaverkunum sem hafa orðið að minnsta kosti 137 að bana. 

Hryðjaverkasamtökin hafa birt myndskeið tekin úr búkmyndavélum árásarmannanna. Þar heyrast þeir meðal annars kalla „Guð er mestur“.

BBC greinir frá því að Bandaríkjamenn hafi staðfest að leyniþjónustur þeirra hafi miðlað upplýsingum til Rússa um ógn fyrr í mánuðinum. 

Rússnesk yfirvöld hafa birt myndir af árásarmönnunum.
Rússnesk yfirvöld hafa birt myndir af árásarmönnunum. AFP

Eyðileggja Úkraínu í stað þess að vernda Rússland

Í frétt BBC segir að Selenskí hafi greinilega verið reiður í ávarpi sínu sem birtist í kvöld, en í nótt voru umfangsmiklar árásir gerðar á Kænugarð og Lvív-hérað.

Selenskí sagði að „ömurlegi“ rússneski leiðtoginn hafi haft meiri áhyggjur af því að kenna Úkraínumönnum um árásina en að hughreysta rússnesku þjóðina. 

Vladimír Pútín Rússlandsforseti lýsti yfir þjóðarsorg í dag.
Vladimír Pútín Rússlandsforseti lýsti yfir þjóðarsorg í dag. AFP&Mikhail Metzel

Þá sagði hann að Rússar hefðu sent hundruðir þúsunda af eigin hryðjuverkamönnum til Úkraínu eftir að innrás Rússa hófst fyrir tveimur árum. 

Selenskí sagði að rússneskir hermenn væru að eyðileggja Úkraínu í staðin fyrir að vernda Rússland fyrir raunverulegri ógn, þ.e.a.s. öfgahyggju. 

Vígvöllur fullur af rússneskum hermönnum 

Í gærmorgun sögðu yfirmenn herleyniþjónustu Úkraínumanna að það væri „fáránlegt“ að halda því fram að árásarmennirnir væru á leið að landamærum Úkraínu, þar sem að landamærin væru vígvöllur fullur af rússneskum hermönnum.

Að sögn rússneskra yfirvalda voru hryðjuverkamennirnir handteknir í Bríjansk-héraði er þeir voru á leið vestur til Úkraínu. 

Selenskí hvatti Rússa til að gagnrýna rússneskar leyniþjónustur, frekar en að ásaka Úkraínumenn. 

Þá ýjað úkraínski forsetinn einnig að þeirri kenningu að rússnesk stjórnvöld ættu sjálf þátt í hryðjuverkaárásinni í Crocus City. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert