Rússneskur dómstóll dæmdi annan mann í gæsluvarðhald í dag vegna gruns um að hafa átt þátt í hryðjuverkunum í Moskvu fyrir viku síðan. Tólf eru nú í haldi vegna hryðjuverkanna sem urðu 144 að bana.
Á meðal þessarra tólf eru mennirnir fjórir sem réðust inn í Crocus City-tónleikahöllina.
Héraðsdómstóllinn í Basmanny í Moskvu dæmdi tadsíkan Nazrimad Lutfulloi í gæsluvarðhald til 22. maí í dag.
Alls hafa níu verið dæmdir í gæsluvarðhald. Óvíst er um stöðu hinna þriggja.
Allir sakborningarnir eiga yfir höfði sér lífstíðarfangelsi.
Íslamska ríkið hefur ítrekað lýst yfir ábyrgð á árásinni en Vladimír Pútín Rússlandsforseti heldur því staðfastlega fram að hryðjuverkamennirnir tengist Úkraínu.
Rússnesk rannsóknarnefnd segist hafa sönnunargögn um að „úkraínskir þjóðernissinnar“ hafi verið að baki árásinni og hefðu styrkt árásarmennina með rafmyntargreiðslum frá Úkraínu.
Nefndin gaf ekki út frekari upplýsingar.
Í dag greindi rannsóknarnefndin frá því að árásarmennirnir hefðu fengið skipanir frá óþekktum skipuleggjanda í gegnum Telegram og að mennirnir hefðu ætlað að flýja til Úkraínu til þess að fá greitt.
Úkraínumenn hafa ítrekað neitað tengslunum og sakað Rússa um að nýta sér hörmungarnar til þess að strykja eigin málstað.
Rússneska heilbrigðisráðuneytið greindi frá því í dag að fórnarlamb árásarinnar lést á sjúkrahúsi og hefur árásin því orðið alls 144 að bana.