Lofthelgi Norður-Noregs lokað

Ekki var líflegt um að litast á flugumferðarsíðunni Flightradar í …
Ekki var líflegt um að litast á flugumferðarsíðunni Flightradar í dag þegar lofthelgi Norður-Noregs var skellt í lás að mestu leyti. Engar flugvélar á ferð í Tromsø og nágrenni. Skjáskot/Fligtradar

Stjórnendur flugumferðar í norskri lofthelgi tóku upp úr hádegi í dag þá ákvörðun að stöðva alla flugumferð yfir vissum svæðum í Norður-Noregi vegna bilunar í flugstjórnarkerfum á flugvellinum í Bodø og kvað að svo rammt að Avinor, rekstraraðili allra flugvalla landsins, virkjaði neyðarteymi sitt til að gæta að öryggismálum.

Missti flugvöllurinn netsamband sitt þegar ljósleiðari fór í sundur og náðist á tímabili ekkert samband við mikilvæg stjórnkerfi flugumferðar til og frá vellinum.

Mest áhrif hafði lokunin þó á umferð um flugvöllinn í Tromsø sem er í næsta fylki norður af Nordland. Það var ekki fyrr en rétt fyrir klukkan 17 að norskum tíma sem opnað var fyrir lendingar og flugtak fáeinna véla. Þetta staðfestir Cathrine Framholt, upplýsingafulltrúi Avinor, við norska ríkisútvarpið NRK.

Prófunarvélar á loft

„Við getum staðfest að við höfum opnað fyrir mjög takmarkaða umferð til og frá Tromsø. Ég get ekki upplýst mikið um ástæður þessa en við vinnum gegnum mörg kerfi og höfum eitt varakerfi,“ segir Framholt við NRK.

Reiknaði Avinor með að ástandið yrði eðlilegt á sjötta tímanum en til öryggis sendi Avinor nokkrar prófunarvélar á loft til að kanna virkni flugumferðarstjórnkerfa.

Bilunin sem upp kom í dag er ekki talin tengjast að neinu leyti vandræðum með umferðarstjórnkerfi á flugvöllum í Suður-Noregi.

Stærsta fjarskiptafyrirtæki Noregs, Telenor, hefur veg og vanda af netsambandi flugvallarins í Bodø og staðfestir Anders Krokan, upplýsingafulltrúi fyrirtækisins, við NRK að bilun hafi komið upp í búnaði á vegum Telenor.

Á leið til frænku sinnar

Sagði hann laust eftir klukkan fjögur að norskum tíma að viðgerðateymi væri á staðnum og ynni að viðgerð en ekki lægi neinn grunur fyrir um skemmdarverk á ljósleiðaranum í Bodø.

„Ég er á leið til frænku minnar að heimsækja litlu frændsystkinin mín sem er mér mikilvægt. Það væri dapurlegt að komast ekki,“ sagði Julia Helen Sundstrøm, farþegi sem beið í von og óvon á flugvellinum í Tromsø á meðan allt var þar í hers höndum í dag.

Farþegar flugfélagsins Widerøe urðu einnig fyrir miklum töfum í dag.

„Eins og er höfum við aflýst flugferðum til Hammerfest, Honningsvåg og Alta og enn fremur frá Tromsø til Trondheim,“ segir Lina Lindegaard Carlsen, upplýsingafulltrúi Widerøe við NRK.

NRK

Dagbladet

VG

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert