Grískt flutningaskip sætir árásum á Rauðahafi

Flutningaskip hafa ítrekað mátt þola árásir Húta á Rauðahafi frá …
Flutningaskip hafa ítrekað mátt þola árásir Húta á Rauðahafi frá því í nóvember. AFP

Lítið fley hæfði grískt flutningaskip á Rauðahafi, nærri jemensku hafnarborginni Hodeidah, í morgun að íslenskum tíma.

Skipið skemmdist við áreksturinn og sökum tjóns á vélinni hefur áhöfnin misst stjórn á því. Nú á þriðja tímanum bárust svo fregnir af því að leki væri kominn að skipinu.

Rétt í þessu barst loks kall frá áhöfninni, þess efnis að óþekkt skeyti úr lofti hefði einnig hæft skipið, að því er breska sjó­flutn­inga­stofn­un­in UK­MTO grein­ir frá.

Ber merki um árás uppreisnarmanna

Fréttaveita Reuters segir að um sé að ræða flutningaskipið Tutor og hefur það eftir breska öryggisfyrirtækinu Ambrey.

Þá er einnig fullyrt að tilvikið beri merki um árás uppreisnarmanna úr röðum Húta í Jemen.

Á leið til Indlands

Leki er meðal annars kominn að vélarrými skipsins, sem siglir undir líberískum hentifána, að því er Reuters hefur eftir tveimur heimildarmönnum innan gríska skipaflutningageirans.

Skipið var á leið til Indlands að sögn heimildarmanns innan gríska flutningaráðuneytisins.

„Það var hæft tvisvar, úr lofti og af hafi. Engar fregnir hafa borist af áverkum,“ segir embættismaðurinn sem nýtur nafnleyndar í umfjöllun Reuters.

Ítrekaðar árásir

Hútar, sem ráða lögum og lofum í höfuðborg Jemens og öðrum þéttbýlustu svæðum landsins, hafa ítrekað ráðist gegn alþjóðlegum skipaflutningum í og við Rauðahaf frá því í nóvember.

Yfirlýst markmið árásanna er samstaða með Palestínumönnum í stríði Ísraels og Hamas. Hafa Hútar í kjölfarið mátt þola gagnárásir frá herjum Bandaríkjanna og Bretlands.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert