Hæstiréttur Bandaríkjanna hafnaði í dag beiðni um að takmarka aðgengi að þungunarrofslyfinu mifepristone sem notað er víða í landinu.
Dómararnir níu voru einróma í afstöðu sinni og sögðu hópa sem beittu sér gegn þungunarrofi og lækna sem vefengdu lyfið skorti lagalega stöðu til að höfða málið.
Mifepristone-málið er fyrsta stóra þungunarrofsmálið sem Hæstiréttur hefur tekið fyrir frá því að hann felldi úr gildi áður stjórnarskrárbundinn rétt til þungunarrofs fyrir tveimur árum.
Lyfið mifepristone var samþykkt af bandaríska matvæla- og lyfjaeftirlitinu (FDA) árið 2000.
Réttur til þungunarrofs er stórt deilumál í forsetakosningunum vestanhafs. Hafði Joe Biden Bandaríkjaforseti hvatt til þess að dómstóllinn hindraði ekki aðgengi að lyfinu.
Donald Trump, sem leiðir flokk Repúblikana, er í grófum dráttum hlynntur því að aðgangur kvenna að þungunarrofi verði hindraður að einhverju leyti.