Leyfa loks loftræstingu í ólympíuþorpinu

Eiffelturninn í París.
Eiffelturninn í París. AFP/Joel Saget

Keppendur á Ólympíuleikunum í París geta nú andað ögn léttar, eftir að stjórnendur Ólympíuleikanna ákváðu að leyfa loks loftkælikerfi í íbúðum í ólympíuþorpinu.

Mótshaldarar höfðu hingað til ekki gert ráð fyrir neinni sérstakri loftkælingu í íbúðum keppenda til þess að draga úr kolefnisspori keppninnar.

Í stað hefðbundinnar loftkælingarkerfa í íbúðunum, átti upprunalega að styðjast við vistvænni tækni. Áformin vöktu þó litla lukku meðal keppenda, sérstaklega hjá bandaríska ólympíuliðinu.

Yfirmaður þess, Rocky Harris, sagði í samtali við AFP fréttastofuna, að sérstaklega mikilvægt væri að keppendum yrðu boðið upp á góða aðstöðu. Annað myndi bara bitna á frammistöðu þeirra á mótinu.  

Ekki viftur fyrir alla

Að sögn Augustin Tran Van Chau, forstöðumanns ólympíuþorpsins, verður 2.500 viftum komið fyrir í þorpinu, en alls eru þar 7.000 herbergi og munu þau hýsa um 15.000 keppendur. Hann sagði einnig að valkvætt yrði að fá viftu en að keppendur þyrftu sjálfir að greiða fyrir rafmagnskostnaðinn af notkun þeirra. 

Leikarnir í ár eru sérstaklega hugsaðir með umhverfismál að leiðarljósi, en stjórnendur hafa sett sér það markmið að kolefnisfótspor leikanna verði helmingi minna miðað við fyrri leika. 

Til að ná því markmiði hefur verið gripið til margs konar aðgerða. Má þar helst nefna að nær allir leikarnir fara fram á gömlum íþróttaleikvöngum og aðeins umhverfisvæn efni voru notuð í þær byggingar sem sérstaklega voru byggðar fyrir keppnina. Auk þess hefur sérstaklega verði sneitt hjá kjöti í matarræði keppenda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert