Segjast hafa sökkt rússneskum kafbát

Rússneskur kafbátur.
Rússneskur kafbátur. Ljósmynd/Wikipedia.org

Úkraínski herinn segist hafa ráðist á og sökkt rússneskum kafbáti í höfn á Krímskaga. BBC greinir frá.

Kafbáturinn var af gerð Rostov-on-don, árásarkafbáta og einn fjögurra slíkra sem rússneski Svartahafsflotinn heldur úti, en Úkraínumenn segja langdræg flugskeyti þeirra hafa grandað bátnum, ásamt því að hafa eyðilagt fjögur S-400 loftvarnarkerfi. Rússnesk yfirvöld hafa ekki tjáð sig um málið. 

Í frétt breska ríkisútvarpsins segir að breska leyniþjónustan hafi áður staðfest að sami kafbátur hafi orðið fyrir stórfelldum skemmdum, þegar Úkraínumenn gerðu síðast árás á Sevastópol-höfn í september 2022. 

Síðan Rússar hófu innrás sína í Úkraínu í febrúar 2022 hefur Úkraínumönnum tekist að sökkva eða valda varanlegum skemmdum á minnsta kosti 15 herskipum, þar á meðal flaggskipi Svartahafsflotans, Moskvu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert