Vladimír Pútín Rússlandsforseti sagðist í dag styðja tillögu Donalds Trumps um að Rússland, Bandaríkin og Kína lækki öll útgjöld til varnarmála um helming.
„Ég held að það sé góð hugmynd. Bandaríkin myndu skera niður um 50 prósent og við myndum skera niður um 50 prósent og síðan myndi Kína gera það sama ef það vildi,“ sagði Pútín í sjónvarpsviðtali.
Rússar hafa aukið hernaðarútgjöld gríðarlega frá því að þeir hófu innrás sína í Úkraínu árið 2022 sem eykur hagvöxt en einnig verðbólgu.
Pútín sagði á síðasta ári að útgjöld til varnarmála og öryggismála myndu ná um 8,7 prósentum af landsframleiðslu fyrir árið 2024.
Hann sagðist ekki geta talað fyrir Kína en að Rússar „gætu náð samkomulagi við Bandaríkin, við erum ekki á móti því“.
„Okkur finnst þetta góð tillaga og erum tilbúin í umræðu um þetta,“ sagði hann að lokum.