Mikið undir í Straumsvíkurmálinu

Sævar Sverrisson mætir til þingfestingar málinu.
Sævar Sverrisson mætir til þingfestingar málinu. Sigurgeir Sigurðsson

Aðalmeðferð í Straumsvíkurmálinu svonefnda lauk í Héraðsdómi Reykjavíkur um klukkan fjögur í dag og hefur málið verið dómtekið. Ákæruvaldið krefst þess að tveir aðalmenn í málinu verði dæmdir í langa fangelsisvist. Verjendur segja kröfuna verulega óhóflega.

Málið er umfangsmikið og auðveldast að skipta því niður í þrjá þætti: þrjú fíkniefnamál sem spruttu úr einni og sömu rannsókninni. Alls eru sex ákærðir í málinu en þáttur þriggja er það smávægilegur að hans verður ekki getið.

Í fyrsta ákærulið eru tveir menn ákærðir: Geir Hlöðver Ericsson og Sævar Þór Óskarsson. Þeim er gefið að sök að hafa haft í vörslum sínum, á heimili Geirs Hlöðvers, 659 grömm af amfetamíni. Geir játaði sök en Sævar Þór neitaði. Sönnunarfærsla ákæruvaldsins gekk því út á að fá Sævar Þór dæmdan einnig.

Saksóknari í málinu, Hulda Elsa Björgvinsdóttir, sagði gögn málsins benda til þess að báðir hafi þeir verið jafnir eigendur amfetamínsins og því eigi að sakfella þá báða. Sævar Þór hafi verið daglegur gestur á heimili Gers Hlöðvers frá maí til október 2011. Þeir hafi verið í samstarfi þegar að fíkniefnum kom.

Báðir voru þeir handteknir í aðgerðum lögreglu 30. júní 2011 eftir að lögreglumenn töldu sig þurfa að grípa inn í, en þeir höfðu þá hlerað heimili Geirs Hlöðvers um góðan tíma. Á hljóðupptökum – umdeildum í málinu – heyrðust Geir Hlöðver og Sævar Þór ræða við þriðja mann í gegnum Skype um bók sem afhenta ætti. Viðmælandinn sagði meðal annars að bókin væri ekki þúsund blaðsíður eins og búist var við heldur sjö hundruð blaðsíður.

Þetta orðalag þótti lögreglumönnum og svo saksóknara benda til að væri um fíkniefni. Þegar saksóknari spurði Geir út í það fyrir dómi í morgun hvort þeir hefðu mikið rætt um bækur eða bókmenntir var enda fátt um svör.

Þegar ljóst var að „bókin“ var komin í hús og Geir og Sævar Þór ræddu um að blanda þyrfti efnin réðst lögregla í aðgerðir, handtók þá og lagði hald á efnið.

Tekur ekki á sig sök fyrir aðra

Þar sem Geir Hlöðver játaði að eiga efnin sem fundust á heimili hans fór verjandi hans lítið yfir þann þátt. Hann tók raunar fram að Geir Hlöðver hefði játað þetta frá upphafi, bæði hjá lögreglu og fyrir dómi. „Þetta veitir ákveðna vísbendingu um það hvernig maður Geir Hlöðver er. Hann er vanur því að taka á sig það sem er hans, en hann tekur ekki á sig sök fyrir aðra sem er einmitt staðan í þessu máli,“ sagði Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, verjandi Geirs Hlöðvers. Vikið verður að ræðu Vilhjálms síðar.

Verjandi Sævars Þórs kom einnig inn á annað atriði sem vikið verður að betur síðar, þ.e. hljóðupptökurnar og hvort byggja eigi á þeim í málinu. „Það er ekki boðlegt í því réttarumhverfi sem við teljum okkur búa við, að leggja fram slíkar hljóðskrár og ætlast til að menn verði sakfelldir á grundvelli þeirra í svona alvarlegum málum. Ég tel og á því er byggt að það verði ekki stuðst við þessi hljóðdæmi sem við höfum fengið að heyra varðandi mat á sekt í þessu máli,“ sagði Sigmundur Hannesson, verjandi Sævars Þórs.

Að öðru leyti vísaði hann til framburðar skjólstæðings síns og Geirs Hlöðvers og að þeir sýndu fullkomlega fram á að Geir Hlöðver hefði haft þessi fíkniefni í vörslum sínum en ekki Sævar Þór. Þau hafi fundist á heimili Geirs Hlöðvers, í þvottavélinni, en Sævar Þór handtekinn annars staðar. Hann hafi ekki getað verið með umrædd efni í vörslum sínum.

Burtséð frá því hvort Sævar Þór verður sakfelldur fyrir þennan lið er alla vega ljóst að Geir Hlöðveri verður gerð refsing fyrir að hafa í vörslum sínum tæp sjö hundruð grömm af amfetamíni.

Félagar í fíkniefnaviðskiptum

Annar ákæruliðurinn lýtur að atburðum 29. september 2011 og vörslu á 255 grömmum af kókaíni. Þar eru flestir ákærðir eða fjórir. Þar á meðal eru þeir Geir Hlöðver og Sævar Þór. Í þessum ákærulið snýst þetta við frá þeim fyrsta. Sævar Þór játaði að hafa haft umrætt kókaín í vörslum sínum, Geir Hlöðver neitar.

Öðru sinni taldi lögregla sig þurfa að bregðast við sökum þess sem kom fram við hlerun húsnæðis Geirs Hlöðvers. Lögreglumenn höfðu heyrt Geir og Sævar Þór ræða við þriðja mann í gegnum Skype um það hvenær ætti að sækja kókaínið á tiltekinn stað á Seltjarnarnesi.

Lögreglan fylgdi þeim eftir og handtók þegar þeir sneru aftur á heimili Geirs Hlöðvers en handtóku um leið alla þá sem þeir áttu í samskiptum við á leiðinni. Þáttur þeirra verður látinn liggja á milli hluta.

Geir kannaðist við að hafa verið farþegi í bílnum umrætt sinn en hafi ekkert átt í fíkniefnunum, þetta hafi verið mál Sævars Þórs og alfarið hans. Saksóknari vísaði til sömu röksemda og í fyrsta ákærulið, þ.e. að Geir Hlöðver og Sævar Þór hafi staðið í fíkniefnaviðskiptum saman. „Framburður Geirs stangast á við gögn málsins, enda benda hlustanir til þess að Geir hafi verið í mestum samskiptum við viðkomandi á Skype og að þeir hafi báðir tekið við fyrirmælum um það hvenær óhætt væri að sækja efnin.“

... eða rangur maður, á röngum stað

Vilhjálmur verjandi Geirs Hlöðvers benti á að Sævar Þór hefði upplýst um það að Geir átti engan hlut að máli. „Í umræddu tilviki var það eina, sem Geir Hlöðver gerði, að vera rangur maður, á röngum stað, á röngum tíma, en hann var farþegi í bíl með Sævari Þór.“

Hann sagði jafnframt að miðað við atvikalýsingu hafi Geir verið það ómögulegt að hafa vörslur á téðum fíkniefnum. Svo var það gagnrýnin á hljóðupptökurnar. Í þetta sinn var kveðið fast að orði. „Þetta er sakamálasaga lögreglunnar. Handrit sem skrifað er upp af atburðarás sem lögregla skáldar. Og það breytir engu þó ákæruvaldið geri tilraun til að vísa í uppskrift lögreglunnar á ógreinilegum upptökum, þar sem varla er hægt að greina orðaskil.“

Hann sagði framburð Geirs stöðugan hvað þennan lið varðar og ítrekaði mótmæli við að upptökurnar væru notaðar til grundvallar sönnun í málinu.

Varkár í samskiptum um vímuefni

Skautað verður yfir ákæruliði sem játaðir eru og refsing varðar ekki öðru en sektum. Er þar um að ræða umferðarlagabrot, vörslu stera og neysluskammta af fíkniefnum. Þá er komið að þeim ákærulið sem málið er nefnt eftir: ákærulið 6.

Verjendum þeirra sem ákærðir voru fyrir litlar sakir í málinu var einmitt tíðrætt um þá refsingu sem felst í því að vera bendlaður við stærsta fíkniefnamál síðasta árs, Straumsvíkurmálið, þegar þeirra þáttur tengist því máli ekki á nokkurn hátt. Hefur það valdið þeim ýmsum vandræðum í einkalífi og starfi.

Í þessum stærsta lið eru Geir Hlöðver og Sævar Sverrisson ákærðir fyrir stórfelldan innflutning á fíkniefnum til landsins, nánar tiltekið tæp tíu kíló af amfetamíni, 8.100 e-töflur og rúm tvö hundruð grömm af kókaíni. Efnin voru flutt til Íslands frá Rotterdam í Hollandi í vörugámi með skipi sem lagði að bryggju í Straumsvík í Hafnarfirði hinn 10. október 2011.

Þetta er talið málið sem lögregla fékk ábendingu um vorið 2011 og leiddi til þess að fylgst var með Geir Hlöðveri. Saksóknari tók það sérstaklega fram að Geir hafi verið þekktur fyrir varkárni í samskiptum þegar kom að fíkniefnum, notaðist við Skype og fundi frekar en símasamskipti. Því kom lítið út úr því að hlera síma hans og eiginlega ekkert bitastætt gerðist fyrr en lögregla fékk úrskurð þess efnis að hlera mætti heimili hans. Þar hafi samtöl snúist mikið um fíkniefni og fíkniefnainnflutning.

Tveir tengdir Geir en ekki Sævari

Saksóknari nefndi að fyrst beri að líta til játningar Sævars en hann hafi játað sinn þátt í málinu, með þeim fyrirvara þó að hann hafi einungis talið sig vera að flytja inn stera. Það sagði saksóknari hins vegar ótrúverðugt og vísaði til þess að Sævar hafði áður selt Geir tíu kíló af mjólkursykri til að drýgja fíkniefni. Þá hafi gríðarleg leynd hvílt yfir samskiptum þeirra, þeir aðeins rætt saman í gegnum eitt símanúmer Geirs, sem ekki hafi verið notað til neinna annarra símasamskipta.

Málið er þannig vaxið, að Sævar starfaði hjá innflutningsfyrirtæki og sá um að afgreiða gáma hingað til lands og leysa þá út. Hann fór sjálfur til Hollands, tók við þremur kössum með umræddum fíkniefnum, sem voru falin í tölvu, hátölurum og heimabíókerfi. Hann kom kössunum í hendur viðskiptafélags fyrirtækisins í Hollandi sem kom þeim fyrir í gámi.

Eins og áður segir neitaði Geir sök og bar við að í öllum símtölum milli hans og Sævars hafi þeir rætt fjármuni sem hann hafi skuldað Sævari, sem hafi selt honum amfetamínið í 1. ákærulið. Ekkert annað benti þó til þess í málinu og var Sævar ekki ákærður í þeim ákærulið.

Tvennt ber að nefna í ræðu saksóknarans um þátt Geirs. Í fyrsta lagi er það Íslendingurinn í Hollandi sem afhenti Sævari fíkniefnin þegar hann fór utan. Sá gaf skýrslu í gegnum síma í morgun – hafði áður neitað að koma til landsins – og sagðist ekki þekkja Sævar og aldrei hafa séð hann áður. Hins vegar liggur fyrir og óumdeilt er að maðurinn og Geir Hlöðver eru æskuvinir. Kom fram í skýrslu hans að Geir hafi dvalið hjá honum í Hollandi og þeir hist mikið þegar Geir Hlöðver bjó í Hollandi.

Hitt atriðið er sú staðreynd, að í gámnum var einnig nokkurt magn stera og var tengdasonur Geir Hlöðvers ákærður fyrir að eiga þá. Saksóknari vísaði til þess í ræðu sinni að hjá lögreglu hafi tengdasonurinn sagt Geir Hlöðver hafa boðið sér pláss í gáminum fyrir stera. Tengdasonurinn breytti hins vegar framburði sínum síðar og sagði Geir Hlöðver ekki hafa komið nálægt sínum þætti málsins.

Ekkert í gögnum málsins benti hins vegar til þess að tengdasonur Geirs Hlöðvers og Sævar Sverrisson þekktust nokkuð. Og ekki fékkst það skýrt hjá tengdasyninum hvernig hann kom sínum sterum til Íslendingsins í Hollandi sem svo afhenti þá Sævari.

Sakamálasaga lögreglunnar

Vilhjálmur verjandi Geirs Hlöðvers hóf ræðu sína um þennan ákærulið á að gagnrýna frekar rannsókn lögreglu. „Hún stóð yfir í marga mánuði og við rannsóknina var gengið mjög nærri friðhelgi einkalífs Geirs Hlöðvers, jafn nálægt og hægt er. Hleraðir voru símar hans og heimili, húsleitir framkvæmdar heima hjá honum, hann var skyggður og fjármál hans rannsökuð. Afrakstur lögreglunnar er nákvæmlega enginn.“

Hann sagði handrit lögreglu að sakamálasögunni algjörlega ómarktækt og oft og tíðum væri um hugarburð lögreglu að ræða. „Verjendur hafa ekki hugmynd um hvort átt hafi verið við þessar upptökur. Það var klippt saman og búið til handrit sem hentar til sakfellingar.“

Þá vísaði Vilhjálmur til upplýsingaskýrslu lögreglu en í henni kom fram að Geir Hlöðver hafi geymt afrakstur fíkniefnasölu á bankareikningi í Hollandi. Skorað var á lögreglu að leggja fram gögn þessu til stuðnings. Hvað kom í ljós annað en að reikningurinn var í mínus.“

Vilhjálmur sagði að Geir hefði ekki haft fjárhagslegt bolmagn til að standa að þessum innflutningi. Engin sönnunargögn hefðu verið lögð fram sem tengja hann við innflutninginn.

Eftir að hafa greint frá því hvernig Geir Hlöðver tengdist málinu ekki, var komið að því að sýna fram á að Sævar Sverrisson hefði vel getað staðið að innflutningnum einn. „Sævar hefur mikil og góð tengsl við Holland. Og hann hafði áður flutt inn pakka með gámi, flutningsleiðin var í gengum hann og fyrirtæki hans.“

Þá vísaði hann til orða Geirs Hlöðvers um að Sævar hefði selt honum amfetamínið í ákærulið eitt og að öll símtöl sem hleruð voru hafi snúist um að Sævar væri að reyna innheimta þá skuld. „Sævar var að reyna rukka Geir um greiðslu fyrir þessi efni og þetta fær stoð í rannsóknargögnum. Um níutíu prósent símtala eru að frumkvæði Sævars og í hverju einu og einasta er Sævar að rukka Geir um fjármuni. Í einhverjum tilvikum greiðir hann honum einhverja fjármuni en langoftast reynir hann að koma sér undan greiðslu, því fjárhagur hans er bágborinn og hann hafði ekki fjárhagslegt bolmagn til að greiða.“

Hann sagði allt í málinu bera að sama brunni og að lögregla hafi ekki viljað rannsaka þátt Sævars til fullnustu. „Sævar skipulagði þennan innflutning með aðstoð samverkamanna sinna í Hollandi og af einhverri ástæðu hefur hann kosið að gera Geir að blóraböggli, líklega til að hljóta vægari dóm sjálfur.“

Að endingu mótmælti hann notkun nokkurra gagna vegna herbergjahlustunar í málinu og sagði ekkert tengja Geir við innflutninginn.

Smánarlega lítil þóknun fyrir stóran farm

Ræða verjanda Sævars gekk að mestu út á að sannfæra dómarann um trúverðugleika Sævars og þar með að hann hafi aðeins vitað að sterar væru í gámnum, en ekki fíkniefnin. „Fíkniefnafarmurinn var fleiri hundruð milljón króna virði. Það verður að teljast ólíklegt að Sævar hafi tekið að sér innflutning á svona miklu magni fyrir svo smánarlega litla upphæð sem hann fór fram á, nokkur hundruð þúsund krónur eða í mesta lagi milljón,“ sagði Ómar Örn Bjarnþórsson, verjandi Sævars.

Ómar benti einnig á, að dagalangt í Amsterdam hefði Sævar ekið um með starfsmanni viðskiptafélags fyrirtækis síns og fjölskyldu sinni. Í farangursrými hefðu kassarnir með efnunum verið. „Hann hefði eflaust komið honum í öruggara skjól hefði hann vitað að þeir væru fullir af fíkniefnum.“

Eins og aðrir verjendur í málinu krafðist Ómar Örn þess að ekki verði byggt á hljóðupptökum eða gögnum sem urðu til vegna þeirra, vegna óskýrleika í upptökunum. „Flestir könnuðust varla við sína eigin rödd. Og það sem skiptir kannski meira máli, er að þetta er ekki skrifað upp í heild heldur teknar út einstaka setningar.“

Þá vísaði Ómar Örn til skýrslutöku yfir lögreglumönnum sem hafi borið um að Sævar hafi verið mjög trúðverðugur. „Það er ekki algengt að þeir komi hingað og staðfesti í álíka viðamiklum rannsóknaraðgerðum að ekkert bendi til þess að Sævar hafi vitað hvað leyndist í pakkningunum.“ Engar sönnur hafi verið færðar á það að Sævar hafi skipulagt innflutninginn og bankagögn og símagögn staðfesti það.

„Framburður hans hefur ekki verið hrakinn og ber að leggja hann til grundvallar í málinu,“ sagði Ómar og einnig að hann hafi ekki haft færi á að athuga innihald kassanna í Hollandi áður en þeir voru sendir með gámnum. Hann hafi fengið einn kassa síðla kvölds sem hann hafi haft yfir nótt, en staðfest sé að í honum hafi aðeins verið sterar. Hinir tveir kassarnir komu morguninn eftir og hann skilaði þeim til starfsmanns fyrirtækisins sama dag. „Það hefur eflaust verið með ráðum gert svo hann færi ekki að athuga innihald kassanna. Þá hefði hann hætt við og flutningsleiðin þar með verið úr sögunni fyrir þá sem stóðu að innflutningnum.“

Forvitnileg úrslausn dómara

Málið hefur nú verið dómtekið og vafalaust tekur dómari málsins, Guðjón St. Marteinsson, sér nokkrar vikur til að kveða upp dóm. Eins og fram kom á mbl.is fyrr í dag fer ákæruvaldið fram á tólf ára fangelsi yfir Geir Hlöðveri og tíu ára fangelsi yfir Sævari Sverrissyni. Farið var fram á vægari refsingu yfir öðrum.

Forvitnilegt verður að sjá hvernig dómari málsins metur gildi hljóðupptaka í málinu enda er það eitt helsta bitbeinið og gefur kannski vísbendingu um hvernig beri að haga slíkum tækjum við rannsókn mála í framtíðinni.

Lögmenn sakborninga í Straumsvíkurmálinu svonefnda við aðalmeðferðina í dag.
Lögmenn sakborninga í Straumsvíkurmálinu svonefnda við aðalmeðferðina í dag. mbl.is/Andri Karl
Fíkniefnin sem fundust í gáminum.
Fíkniefnin sem fundust í gáminum. mbl.is/Júlíus
Allir verjendur.
Allir verjendur. mbl.is/Sigurgeir
Einn sakborninga við þingfestinguna.
Einn sakborninga við þingfestinguna. Morgunblaðið/Sigurgeir S.
Ómar Örn Bjarnþórsson (ttil hægri) verjandi Sævars Sverrissonar. Við hlið …
Ómar Örn Bjarnþórsson (ttil hægri) verjandi Sævars Sverrissonar. Við hlið hans er fangavörður og fyrir aftan glittir í Sævar. Morgunblaðið/Ómar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka