„Við vorum auðvitað mjög smeykir að stíga þetta skref, þetta hafði aldrei verið gert áður,“ segir Tómas Guðbjartsson, prófessor við Læknadeild HÍ og yfirlæknir á Landspítalanum, en eitt ár er í dag liðið frá því að plastbarki var í fyrsta sinn græddur í manneskju.
Aðgerðin vakti heimsathygli. Tómas Guðbjartsson framkvæmdi aðgerðina í samstarfi við Paolo Macchiarini, prófessor við Karolinska Instituet í Stokkhólmi. Í dag mun Háskóli Íslands standa fyrir tveimur málþingum um aðgerðina.
Barkaþeginn, Andemariam Teklesenbet Beyene, er 36 ára Erítreubúi. Sama haust og hann kom til landsins árið 2009, greindist hann með krabbamein í barka, en það leiddi til þess að hann byrjaði í meðferð hjá Tómasi.
Um var að ræða sjaldséð krabbamein í barka og erfitt reyndist að hemja það með geislameðferð. Andemariam var orðinn mjög veikur þegar sú ákvörðun var tekin að græða í hann plastbarka. Nákvæmt plastmót var gert af barka Andemariams og var aðgerðin samhliða undirbúin.
„Það var mjög sérstök stemning inni á skurðstofunni, daginn sem aðgerðin var framin. Við náttúrulega vissum ekkert hver útkoman yrði,“ segir Tómas, en aðgerðin gekk vel.
Aðgerðin hefur vakið athygli meðal rannsóknahópa um allan heim og fylgjast þeir vel með gangi mála.
Fjölskylda Andemariams býr hér á Íslandi, en það voru einkaaðilar sem kostuðu för hennar til Íslands. „Það var auðvitað ein af stærstu stundunum í þessu ferli þegar Andemariam fékk að hitta fjölskyldu sína,“ segir Tómas en Andemariam hafði aldrei séð yngsta barnið sitt fyrir aðgerðina.
Aðeins einu sinni hefur svona aðgerð verið framkvæmd eftir að Andemariam gekkst undir hnífinn fyrir ári, en nokkrar aðgerðir eru í bígerð.