Sala á hlutabréfum í eigu Kaupþings til félags í eigu Mohammeds bin Khalifa Al Thani í september 2008 voru Kaupþingi á allan hátt hagfelld og með viðskiptunum voru engin lög brotin. Þetta segir Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi bankastjóri Kaupþings, í greinargerð sem hann lagði fram í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Hreiðar er ákærður fyrir umboðssvik og markaðsmisnotkun í tengslum við kaup Al Thani á hlutabréfum í Kaupþingi. Kaupþing var með viðskiptavakt á bréfum í bankanum og hafði eignast stóran hlut í bankanum. Bankinn mátti ekki eiga stóran hlut í sjálfum sér í langan tíma og þurfti að losna við bréfin. Al Thani samþykkti í september 2008, tveimur vikum áður en bankinn féll, að kaupa 5,01% hlut í bankanum. Kaupverðið var 25,5 milljarðar króna.
Ekki kom fram þegar viðskiptin voru tilkynnt hvernig þau voru fjármögnuð, en því er haldið fram í greinargerðum verjanda í málinu, að engin skylda hafi verið að upplýsa um það. Raunar kemur fram í greinargerð Hreiðars Más að það hafi ekki verið heimilt.
Viðskiptin voru fjármögnuð með þeim hætti að Kaupþing lánaði fyrir viðskiptunum. Í reynd kom því aldrei neitt fjármagn erlendis frá vegna viðskiptanna. Al Thani gaf út sjálfskuldarábyrgð vegna 50% lánsins. Helmingur lánsins fór í gegnum félagið Gerland sem var í eigu Ólafs Ólafssonar, en hann er ákærður fyrir hlutdeild í brotinu.
Sérstakur saksóknari hóf árið 2009 rannsókn á þessum viðskiptum, en hann telur að um hafi verið að ræða sýndarviðskipti, m.a. í þeim tilgangi að hafa áhrif á verð hlutabréfa í bönkunum, en þau hækkuðu fyrst eftir að upplýst var um viðskiptin.
Hreiðar Már gagnrýnir í greinargerð sinni málatilbúnað saksóknara harðlega. Hann segir að um raunveruleg viðskipti hafi verið að ræða. Við viðskiptin hafi eignarhald og markaðsáhætta af hlutabréfunum færst frá Kaupþingi til félags í eigu Al Thani. Bankinn hafi um leið eignast kröfu sem bar vexti og notið óbeinnar tryggingar í hlutabréfunum. Að auki hafi fengist trygging frá Al Thani fyrir 50% kaupverðsins eða um 12,8 milljörðum. „Kaupþing var því án nokkurs vafa mun betur sett eftir viðskiptin,“ segir í greinargerð verjanda Hreiðars Más.
Hreiðar Már vísar því alfarið á bug að Ólafur Ólafsson hafi verið einhvers konar óbeinn eigandi hlutabréfanna, eins og saksóknari heldur fram í ákærunni.
Þann 8. október 2008, á síðasta starfsdegi Kaupþings, voru fjármunir lánaðir úr bankanum til félags sem heitir Brooks Tradeing Ltd. Lánið var upp á 50 milljónir dollara, en þeir voru notaðir til að greiða að stærstum hluta þá skuld sem sjálfskuldarábyrgð Al Thani stóð til tryggingar á. Þetta var gert til að kaupa krónur á aflandsgengi sem mun á þeim degi hafa verið 356 krónur fyrir hvern bandaríkjadal. Þeim krónum var ráðstafað inn á skuldina við Al Thani og eftirstöðvar voru greiddar skömmu síðar.
Hreiðar Már gagnrýnir þennan gjörning harðlega í greinargerðinni og segir að með henni hafi „ýmsar réttarreglur verið brotnar“. Tilteknir starfsmenn Kaupþings hafi unnið hörðum höndum að því að koma þessu í kring og jafnvel átt frumkvæði að þessari leið.
Þetta hafi leitt til þess að í stað þess að Kaupþing ætti kröfu á hendur skuldlausu félagi sem átti ríflega 50 milljónir dollara í reiðufé hefði bankinn nú átt kröfu á hendur félagi í gjaldþrotameðferð. Ef ekki hefði komið til þessarar ráðstöfunar hefði Kaupþing að auki átt um 12,8 milljarða kröfu, auk vaxta, á hendur traustum greiðanda, Al Thani, persónulega.
Hreiðar Már segist ekkert hafa komið að þessu uppgjöri og raunar ekki frétt af því fyrr en eftir fall bankans, en fullt tilefni hafi verið fyrir saksóknara að rannsaka þennan hluta málsins.