Deloitte telur ástæðu til að kanna frekar bókhald hjúkrunarheimilisins Eirar til þess að ganga úr skugga um það hvort viðskipti eða viðskiptahættir sem telja megi óeðlilega hafi viðgengist á undanförnum árum til viðbótar við það sem þegar liggur fyrir. Í framhaldi af slíkri skoðun og með hliðsjón af upplýsingum sem þegar liggi fyrir þurfi að meta hvort stjórnendur Einar kunni að hafa farið á svig við lög í störfum sínum fyrir stofnunina.
Þetta kemur fram í niðurstöðum skýrslu sem fyrirtækið vann um starfsemi þess og birt var í vikunni. Fram kemur í skýrslunni að færsla afsláttar til bleiukaupa í bókhaldi Eirar hafi að mati Deloitte ekki verið í samræmi við lög og almenna bókhalds- og reikningsskilavenju. Þannig hafi afslátturinn verið færður inn á bókhaldslykil (þróunarsjóð) í efnahagsreikningi í stað þess að færa hann á rekstrarreikning til lækkunar á kostnaði vegna bleiukaupa.
„Samkvæmt okkar upplýsingum var afslátturinn fyrst færður á efnahagslykilinn 2004. Því er ekki um tæmandi könnun að ræða á umfangi greiðslna úr honum, en við skoðuðum einungis árin 2009-2011. Við teljum nauðsynlegt að skoða allt tímabilið sem þessar færslur áttu sér stað til að leggja mat á umfang þessara viðskipta,“ segir í skýrslunni.
Ekki séð að greiðslur hafi tengst rekstri Eirar
Fram kemur ennfremur að Deloitte hafi farið yfir afrit af reikningum sem greiddir voru úr þróunarsjóði á árunum 2009-2011. Greiðslur hafi numið samtals 2,7 milljónum króna og verið vegna dagpeninga, flugferða gistinga og veitinga erlendis sem tengist fyrrverandi forstjóra Eirar og fjölskyldumeðlimum hans, fyrrverandi fjármálastjóra stofnunarinnar og maka hans, fyrrverandi framkvæmdastjóra rekstrar og fyrrverandi starfsmanni hennar.
„Allar greiðslurnar voru samþykktar, ýmist af fyrrverandi forstjóra og/eða fjármálastjóra. Út frá þeim gögnum sem við skoðuðum hefur ekki verið sýnt fram á að greiðslurnar tengist með beinum hætti rekstri Eirar og við teljum því líkur á því að um óeðlilegar greiðslur geti verið að ræða,“ segir ennfremur.
Skipulagsskrá og innra eftirlit Eirar verði endurskoðað
Einnig eru gerðar athugasemdir í skýrslunni við stjórnsýslu Eirar og bent á ýmis atriði sem betur mættu fara í þeim efnum. Þannig sé til að mynda ekki eðlilegt að sami einstaklingur sé stjórnarformaður hjúkrunarheimilisins og sinni á sama tíma verkefnum framkvæmdastjóra þess þar sem slíkt geti veikt eftirlit stjórnar með störfum framkvæmdastjóra.
Eins sé óheppilegt að sami einstaklingur sé formaður stjórnar Eirar og formaður fulltrúaráðs. Telur Deloitte ástæðu til þess að endurskoða þætti í skipulagsskrá hjúkrunarheimilisins og innra eftirliti.