Brynjar Karl Birgisson er 11 ára gamall einhverfur drengur sem dreymir um að heimsækja LEGO-verksmiðjurnar í Danmörku, en hann hyggur á smíði líkans af risaskipinu Titanic. Til þess þarf mörg hundruð þúsund kubba og í myndskeiði á YouTube biðlar Brynjar Karl til danska leikfangaframleiðandans að bjóða sér í heimsókn og aðstoða sig við smíðina.
Brynjar Karl gengur í Langholtsskóla og er mikill áhugamaður um tölvur, forritun, skip og LEGO-kubba og sækir forritunarnámskeið fyrir börn. „Hann er mjög félagslyndur þótt hann sé einhverfur, en það hangir ekki alltaf saman. Einhverfa er svo mismunandi, það átta sig ekki allir á því. Hann er einstaklega lífsglaður 11 ára strákur sem á sína drauma, rétt eins og allir jafnaldrar hans,“ segir Bjarney Lúðvíksdóttir, móðir Brynjars.
Myndskeiðið settu þau mæðgin inn í dag og viðbrögðin hafa verið afar jákvæð. „Ég er hálfundrandi á því hvað allir eru jákvæðir og hvað við fáum flottar móttökur. Þetta virðist höfða til margra og það er mjög jákvætt,“ segir Bjarney. Hún segir hugmyndina hafa komið frá Brynjari Karli. „Hann er óttalegur markaðsmaður í sér og hann á algjörlega þessa hugmynd. Hann sagðist vilja senda bréf til kallsins sem stjórnar LEGO-landi. Ég sagði að það væri örugglega hægt, en við ákváðum síðan að koma þessu frá okkur á þennan hátt. “
Í myndskeiðinu útskýrir Brynjar Karl einhverfu fyrir áhorfendum. „Það getur verið svolítið erfitt að vera einhverfur. Ég þarf að ná stjórn á huga mínum og líkama og á hverjum degi læri ég að haga mér, rétt eins og eðlileg börn. Hvað sem eðlilegur þýðir eiginlega! Ég er svo mikið að reyna að átta mig á því. En fyrst og fremst er ég listrænn. Ég er listrænn og skapandi.“
„Ég elska að byggja úr LEGO-kubbum,“ segir Brynjar Karl í myndskeiðinu og greinir frá því að hann byggi úr kubbunum nánast á hverjum degi og að hann hafi nú þegar gert teikningar og útreikninga varðandi byggingu Titanic, sem verði að öllum líkindum 16,33 metra langt. Til þess þurfi hann mörg þúsund kubba og aðstöðu í verksmiðjunni. „Nú þarf ég bara ykkar hjálp. því ég á ekki svona marga kubba,“ segir Brynjar Karl. „Ég vil geta sýnt heiminum að ég er sannur LEGO-meistari.“
„Hann hefur leikið sér svo mikið með LEGO-kubba að þeir eru orðnir eins og fjölskyldumeðlimir,“ segir Bjarney. Hún segir leikinn með kubbana hafa hjálpað Brynjari Karli við að þróa hæfileika sína og skynjun. Skip eru í mestu uppáhaldi hjá honum og hann byggir þau ýmist samkvæmt forskriftum sem fylgja kubbakössunum eða hannar sín eigin. Þá byggir hann gjarnan flugvélar, þekktar byggingar og ýmis mannvirki.
Bjarney er kvikmyndagerðarkona og vinnur að heimildamynd um son sinn. Hún segir það vera lið í því að skilja hann betur, hvernig hann tjái sig og hvernig hann lifi með einhverfunni. „Ég aðstoða hann eftir bestu getu við að ná markmiðum sínum. Við ákváðum í sameiningu að búa til þessi skilaboð, þetta myndskeið á YouTube og vonum að það nái á réttan stað.“
Þeir sem vilja hvetja LEGO til að taka á móti Brynjari Karli í verksmiðju sinni geta skrifað athugasemd við myndskeiðið og merkt það með #lego eða #legoland
)