Brynjar er heiðursborgari Tennessee

Brynjar Karl var 10 ára þegar hann byggði Titanic úr …
Brynjar Karl var 10 ára þegar hann byggði Titanic úr legókubbum. Nú ferðast hann um heiminn og segir frá tækifærunum sem smíðin hefur veitt honum. mbl.is/Árni Sæberg

„Kæru vinir, ég færi ykkur gleðifréttir frá Tenn­essee.“ Á þessum orðum hefst Facebook-færsla Brynjars Karls Birgissonar, sem er einna þekktastur fyrir að hafa smíðað stærsta Titanic-líkan heims úr legókubbum.

Brynjar hefur verið gerður að heiðursborgara í Tennesse í Bandaríkjunum en hann er staddur í ríkinu þar sem Titanic-líkanið hans verður til sýnis á Titanic-safninu í bænum Pigeon Forge. Ríkisstjórinn í Tennessee, Bill Haslam, sæmdi Brynjar heiðursborgaratitlinum í sérstökum kvöldverði sem var haldinn í tilefni af opnun sýningarinnar.

Bæjarstjórinn í Pigeon Forge, David Wear, var einnig viðstaddur kvöldverðinn og ekki var hann minni maður en borgarstjórinn og tilkynnti að héðan í frá verður 16. apríl Brynjars-dagurinn í bænum. Útnefningunum var þó ekki lokið þar sem John og Mary Joslyn, fulltrúar Titanic-safnsins, gerðu Brynjar að heiðursáhafnarmeðlimi um borð í Titanic.

Brynjar skrifar á Facebook-síðu sinni að hann sé mjög stoltur. Hann hefur verið á ferðalagi um Evrópu og Bandaríkin til að kynna líkanið sem verður nú á Titanic-safninu næstu tvö árin.

Smíðin hjálpaði Brynjari út úr þoku einhverfunnar

Erlendir fjölmiðlar hafa veitt legómeistarnum og skipi hans mikla athygli. Fréttamaður frá BBC var viðstaddur þegar líkanið var frumsýnt á safninu í vikunni. „Það tók mig yfir ellefu mánuði að byggja líkanið og 120 túbur af ofurlími voru notaðar í ferlinu,“ sagði Brynjar við opnun sýningarinnar.

Frétt mbl.is: Brynjar og Titanic á CNN

Það vakti athygli fréttamanns BBC að Brynjar sagði að hann væri hræðilega feiminn og forðaðist að tala opinberlega þegar hann hóf að kynna Titanic-líkanið erlendis. „Ég var gjörsamlega óhæfur um að eiga í samskiptum þegar ég byrjaði á verkefninu. Í dag stend ég á sviði og fer í viðtöl,“ sagði Brynjar.  

Hann lauk við byggingu líkansins hér á landi árið 2015, þá 10 ára gamall. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar og er hann orðinn þaulvanur að koma fram og segja frá verkefninu og öllu því sem það hefur gefið honum. 

Brynjar Karl er á ferðalagi um Bandaríkin þar sem hann …
Brynjar Karl er á ferðalagi um Bandaríkin þar sem hann kynnir Titanic-líkanið. Hér er hann staddur í skólaheimsókn í Tennessee. Ljósmynd/Facebook

Hann hefur einnig greint frá því að bygging líkansins hefur hjálpað honum út úr þoku einhverfunnar. „Ég hef þjálfað mig til að verða eins eðlilegur og mögulegt er, sama hvað „eðlilegur“ þýðir,“ segir Brynjar Karl.

Hægt er að fylgjast með ævintýrum legómeistarans og heiðursborgarans Brynjars Karls á Facebook.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert