Bæjarráð Reykjanesbæjar hefur samþykkt að ráða Kjartan Már Kjartansson sem bæjarstjóra Reykjanesbæjar til loka þessa kjörtímabils og formanni bæjarráðs veitt heimild til að ganga frá ráðningarsamningi við hann og leggja fyrir bæjarráð.
Kjartan Már Kjartansson er rekstrarhagfræðingur MBA frá Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og hefur sl. sex ár starfað sem framkvæmdastjóri Securitas á Reykjanesi. Kjartan Már, sem einnig er menntaður fiðluleikari og kennari, starfaði í 18 ár sem skólastjóri Tónlistarskólans í Keflavík en eftir það í ýmsum stjórnunarstörfum hjá Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum, Icelandair Ground Service, LazyTown og Samkaupum hf.
Kjartan var varamaður í bæjarstjórn Reykjanesbæjar frá 1994-1998 og aðalmaður í 8 ár; frá 1998-2006. Hann hefur setið í fjölda nefnda og ráða á vegum Reykjanesbæjar og er núverandi stjórnarformaður Hljómahallar og Rokksafns Íslands. Kjartan Már er ekki flokksbundinn neinu stjórnmálaafli í dag.
Í tilefni af ákvörðun nýs meirihluta í Reykjanesbæ að ráða Kjartan í stöðu bæjarstjóra, bókuðu sjálfstæðismenn eftirfarandi í bæjarráði í morgun:
„Við ákvörðun um ráðningu bæjarstjóra hafa sjálfstæðismenn ekki verið upplýstir um efni umsókna þeirra rúmlega 20 sem sóttu um stöðu bæjarstjóra og hvernig komist var að umræddri niðurstöðu. Því er ógjörningur að taka afstöðu til umsækjenda.
Hins vegar er ánægjulegt að núverandi þrír flokkar í meirihluta skuli svo stuttu eftir kosningar komnir af þeirri skoðun sinni að ekki skuli vera pólitískur bæjarstjóri því aðili með skýran pólitískan bakgrunn er metinn bestur til starfsins. Kjartan Már hefur að auki góða rekstrarreynslu.
Áberandi er að Frjálst afl hefur fallið frá þeirri stefnu sinni að bæjarstjóri þurfi að vera sérfræðingur í „endurskipulagningu skulda“ og „eintengjast ekki stjórnmálaöflum í bæjarfélaginu“.
Við óskum Kjartani Má góðs gengis í starfi sínu fyrir bæinn og munum vinna vel með honum.“