Ríflega hálfnaður með Titanic

Brynjar Karl Birgisson hefur undanfarnar vikur unnið að því að byggja líkan af farþegaskipinu Titanic úr Lego-kubbum. Skipið er alls 6,33 metrar á lengd og er Brynjar, sem er 11 ára einhverfur drengur, meira en hálfnaður með verkið.

Brynjar, sem er viðmælandi Barnablaðsins í dag, segist hafa ákveðið að byggja Titanic, enda sé skipið stórt, fallegt og hraðskreitt. Hann vinnur að því að setja skipið saman í nokkrar klukkustundir á dag. 

„Afi minn er búinn að reikna það út að þetta verða 56.000 Lego-kubbar. Ég er með síðu sem heitir brynjarkarl.com. Þar hefur farið fram söfnun sem hefur gengið mjög vel og hef ég náð að safna mér peningum fyrir kubbunum í skipið. Við það fólk sem hefur styrkt mig vil ég segja takk kærlega fyrir,“ segir Brynjar í samtali við Barnablaðið.

Hann segir að Legoland hafi sagt að fullbúið verði þetta stærsta Lego-skip í heimi.

„Fjölskylda mín hefur verið dugleg að hjálpa mér og vinir líka. Afi hjálpaði mér að gera undirstöðurnar. Mamma er líka að standa sig vel,“ segir Brynjar, þegar hann er spurður hvernig honum gangi.

Aðspurður segir Brynjar að hann voni að hann nái að ljúka smíðinni eftir mánuð.

Nánari umfjöllun er að finna í Barnablaðinu sem fylgir með Morgunblaðinu í dag.

Brynjar Karl hálfnaður með Titanic

Lífsglaður Lego-meistari hyggur á byggingu Titanic  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka