Kosningabaráttan kostaði rúma milljón

Frá aðalfundinum í dag.
Frá aðalfundinum í dag. Ljósmynd/Píratar

Heildarkostnaður við kosningabaráttu Pírata fyrir borgarstjórnarkosningarnar síðastliðið vor var 1.076.268 krónu samkvæmt rekstraryfirliti sem kynnt var á aðalfundi svæðisfélags Pírata sem fram fór í dag.

Stærstur hluti kostnaðarins var vegna kynningarmála eða tæplega 674 þúsund krónur og rekstur kosningaskrifstofu sem kostaði félagið rúmar 278 þúsund krónur. Fjárframlög voru hins vegar 1.464.664 krónur en stærstur hluti þeirra kom frá Reykjavíkurborg vegna árangurs Pírata í kosningunum samkvæmt vefsíðu þeirra. Rúmar 637 þúsund krónur komu hins vegar frá einstaklingum og fyrirtækjum. Rekstrarafgangur eftir kosningarnar var fyrir vikið rúmlega 388 þúsund krónur.

Kjörin var ný stjórn á fundinum. Þórlaug Ágústsdóttir var kosin stjórnarkafteinn en aðrir í stjórn eru Katla Hólm Vilbergs- og Þórhildardóttir, Þórður Eyþórsson, Sigmundur Þórir Jónsson og Júlíus Örn Fjeldsted. Varamenn í stjórn eru Björn Þór Jóhannesson, Gissur Gunnarsson, Sigurður Haukdal og Grímur Hjartarson. Helgi Njálsson og Jóhann Haukur Gunnarsson voru kjörnir skoðunarmenn reikninga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka