Í sveitarstjórnarkosningunum í maí var kjörsókn í landinu minni en nokkru sinni fyrr. Á landinu öllu varð heildarkjörsóknin 66,5% og í þremur stærstu sveitarfélögum landsins – Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði – var hún einungis um 60 prósent. Þetta segir í inngangi skýrslu sem innanríkisráðuneytið lét gera til að komast að því hvað orsakaði þessa litlu kjörsókn.
Á blaðsíðu 23 í skýrslunni er áhugaverð tafla, þar sem boðið er upp á þann svarmöguleika að ástæður þess að fólk kaus ekki var sú að það nennti því ekki.
Í heildina sögðu 30% þeirra sem ekki kusu þennan möguleika eiga mjög eða frekar vel við sig. Þetta er óvenju há tala og hún er ennþá hærri meðal karla (34%), yngstu svarendanna (35%) og í stærstu sveitarfélögunum (32%) svo dæmi séu tekin.
Í inngangi að skýslunni segir: „Óhætt er að fullyrða að fáa hefði órað fyrir jafn mikilli minnkun kjörsóknar á jafn skömmum tíma. Að vísu hafði verið leitt að því líkum að hina dræmu kjörsókn í kosningunum árið 2010 mætti að einhverju leyti rekja til áhrifa frá bankahruninu árið 2008 og útgáfu Rannsóknarskýrslu Alþingis sem kom út sex vikum fyrir kosningarnar. Áframhaldandi fall kjörsóknar í ár (2014) kom engu að síður mjög mörgum á óvart.
Allt frá sveitarstjórnarkosningunum árið 2002 þegar kjörsókn var 83,2% hefur hún lækkað verulega milli hverra kosninga; fyrst niður í 78,7% árið 2006, síðan niður í 73,5% árið 2010 og loks í 66,5% nú. Alls hefur því kjörsókn minnkað um tæp 17 prósentustig frá árinu 2002.
Í ljósi þessarar óheillavænlegu þróunar varð það úr að ráðist yrði í að gerð könnunar á kosningaþátttöku þar sem leitað yrði skýringa á þessari þróun – ekki síst hvað gæti skýrt hina dræmu kjörsókn vorið 2014. Í könnuninni var spurt um þekkt atriði sem talin eru skýra þátttöku í kosningum almennt.
Jafnframt eru þeir sem ekki kusu í síðastliðnum sveitarstjórnarkosningunum spurðir ítarlega bæði út í ástæður þess og um aðra þætti sem geta skýrt það af hverju þeir mættu ekki á kjörstað. Þá var einnig spurt um hvort kynningarmyndbönd Sambands íslenskra sveitarfélaga hafi náð augum og eyrum fólks.
Verkefnið var unnið í samstarfi Háskólans á Akureyri, Háskóla Íslands, Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands og doktorsnema við Háskólann í Mannheim. Innanríkisráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga fjármögnuðu sjálfa framkvæmd verkefnisins og grunnúrvinnslu en háskólarnir hina fræðilegu vinnu að öðru leyti.“