Ásakanir á þvers og kruss

Ljósmynd frá barkaígræðslunni í Stokkhólmi.
Ljósmynd frá barkaígræðslunni í Stokkhólmi.

Barkaígræðsla sem framkvæmd var á íslenskum jarðeðlisfræðinema árið 2011 er miðpunktur deilna á milli fræðimanna við Karolinska háskólasjúkrahúsið í Svíþjóð. Eins og mbl.is greindi frá fyrr í dag hefur nú komið í ljós að ítalski „ofurskurðlæknirinn“, Paolo Macchiarini, og teymi hans hafði ekki fengið leyfi siðanefndar fyrir því að framkvæma slíkar aðgerðir í rannsóknarskyni.

Ásakanirnar um leyfisleysi Macchiarini voru teknar til rannsóknar í nóvember síðastliðnum en þær voru bornar á hann af læknum sem tóku þátt í meðhöndlun námsmannsins og þriggja annarra sjúklinga sem gengust undir sömu aðgerð. Þá sögðu þeir Macchiarini ekki hafa fengið skriflegt samþykki allra sjúklinganna auk þess hann hafi hagrætt sannleikanum í grein um aðgerðina á vef læknaritsins The Lancet þar sem hann lét sem engin vandkvæði hefðu komið upp þrátt fyrir að raunin væri önnur.

Einn þeirra sem standa á bakvið ásakanirnar er læknirinn Karl-Henrik Grinnermo. Samkvæmt  New York Times, sem upprunalega greindi frá ásökununum í nóvember síðastliðnum, var það Grinnemo sem var upprunalega sakaður um siðabrot af nánasta samstarfsmanni Macchiarini í tengslum við styrk sem hann fékk frá sænska ríkinu. Ásakanirnar fljúga því á þvers og kruss en nú er ljóst að einhverjar þeirra áttu rétt á sér.

Macchiarini hefur ekki svarað fyrirspurnum eftir að í ljós kom að leyfið skorti en þegar New York Times innti hann eftir svörum í nóvember sór hann af sér allar ásakanirnar.

„Við höfum aldrei átt við nein gögn,“ sagði Macchiarini og bætti við að hann hefði fylgt öllum lögum og siðareglum læknisfræðinnar. Sagðist hann jafnframt mjög öruggur um að rannsóknin myndi leiða í ljós sakleysi hans.

 „Ég baðst fyrir og samþykkti"

Íslenski námsmaðurinn sem gekkst undir aðgerðina hét Andemariam Teklesenbet Beyene og var upprunalega frá Erítreu. Hann stundaði meistaranám í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands þegar hann greindist með æxli í barka árið 2009 sem var of stórt til að fjarlægja. Áður en hann gekkst undir aðgerðina leit út fyrir að æxlið myndi teppa öndunarveginn og kæfa Anemameriam.

Macchiarini hafði áður grætt barka úr látnu fólki í lifandi sjúklinga með hjálp stofnfrumumeðferða. Sú lausn kom hinsvegar ekki til greina fyrir Andemariam og var því ákveðið að búa til nýjan barkavef úr gerviefnum og stoðfrumum sem teknar voru úr beinmerg Beyene. Vefurinn var svo græddur í háls hans á Karolinska sjúkrahúsinu.

Aðgerðin sem tók 12 klukkustundir hafði þá aldrei verið framkvæmd áður en aðeins fimm dögum síðar gat Beyene andað einn og óstuddur aftur.

Fram kemur í frétt mbl.is frá 2011 að Andemariam hafði haft miklar efasemdir um aðgerðina þar sem hún var eins ný af nálinni og raun bar vitni. Hann hafi hins vegar tekið ákvörðun eftir að hafa rætt við íslenska lækninn sinn,Tómas Guðbjartsson sem jafnframt tók þátt í aðgerðinni á Karolinska, og fjölskyldu sína. „Ég baðst fyrir og samþykkti," sagði Andemariam sem átti konu og tvö börn í Erítreu. Fjölskyldan kom til Íslands til að hjálpa honum í gegnum aðgerðina og var það í fyrsta skipti sem Andemariam barði yngra barn sitt augum.

Ári eftir aðgerðina sagði Andemariam í samtali við mbl.is að honum liði vel. Var haldið upp á að árið hefði liðið klakklaust með málþingi um aðgerðina í Háskóla Íslands. Þá náði Andemariam jafnframt að verða faðir í þriðja sinn.

Því miður hrakaði heilsu Andemariam aftur haustið 2013 og hann lést þann 30. janúar 2014. Sænska teymið á bakvið ígræðsluna segir hana þó ekki hafa verið dánarorsök mannsins.

Sex látnir en tveir á lífi

Í umfjöllun á vefsvæði læknaritsins Nature frá því í nóvember er greint frá því að Macchiarini hafi sett gervibarka í alls átta manns víða um heim en eins og áður hefur komið fram fóru þrjár ígræðslnanna fram á Karolinska sjúkrahúsinu. 

Í umfjölluninni segir að nýlegasti sjúklingurinn, sem gekkst undir ígræðslu í júní 2014, braggist vel og sé laus við þau sjúkdómseinkenni sem áður voru til staðar. Eing og mbl.is greindi frá í dag er tyrknesk kona sem hlaut gervibarkaígræðslu á Karolinska fyrir tveimur árum á lífi en þó enn undir gjörgæslu. Hinir sex sjúklinganna eru allir látnir en lifðu í allt frá þremur og upp í 31 mánuð eftir aðgerðina samkvæmt Nature. 

Macchiarini segir ekkert dauðsfallanna tengt við ígræðslurnar. Segir hann einn hafa látist af slysförum, annan úr ofneyslu áfengis og þriðja úr öndunarbilun sem leiddi af sér bilun annarra líffæra.

„Að gefnu eðli þessarar vinnu erum við ekki í aðstöðu til að lofa [sjúklingunum] að þeir muni lifa til lengri tíma og þeir eru afar meðvitaðir um það strax í upphafi,“ segir Macchiarini. „Við gefum þeim allavega möguleika, möguleikann á lengra lífi, og þá von að vera sá sjúklingur sem lifir af til lengri tíma.“

Fréttir mbl.is:

Skar upp án leyfis

Andlát: Andemariam Teklesenbet Beyene

Líður vel rúmu ári eftir aðgerð

Ætlaði að hafna aðgerðinni

„Voru smeykir að stíga þetta skref“

Dr. Macchiarini.
Dr. Macchiarini.
Andemariam Teklesenbet Beyene
Andemariam Teklesenbet Beyene www.hi.is
Skýringarmynd sem sýnir ígræðslu gervibarka.
Skýringarmynd sem sýnir ígræðslu gervibarka.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert