60% vilja rýmka reglur um mannanöfn

Niðurstaða könnunar sem innanríkisráðuneytið lét vinna er að 60% svarenda vilja að reglur um mannanöfn verði rýmkaðar. Tæp 20% eru hlutlausir og 20% svarenda eru andvígir því að reglur verði rýmkaðar.

Ólöf Nordal innanríkisráðherra telur að veiti eigi fólki meira frelsi til að velja nöfn á börn sín og hefur óskað eftir að unnið verði að breytingum á regluverkinu.

Þetta kemur fram á vef innanríkisráðuneytisins.

Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands annaðist könnunina fyrir innanríkisráðuneytið og náði hún til 1.437 einstaklinga 18 ára og eldri og svöruðu 873 eða 61%. Könnunin fór fram 15. júní til 12. júlí og náði til meðlima í svonefndum netpanel Félagsvísindastofnunar HÍ en hann samanstendur af einstkalingum 18 ára og eldri um land allt sem hafa samþykkt að taka þátt í netkönnunum á vegum stofnunarinnar.

Í inngangi könnunarinnar er þess getið að í lögum um mannanöfn sé kveðið á um nafngjöf og rétt og skyldu forráðamanna til að gefa börnum sínum nöfn. Minnst er á mannanafnanefnd og hlutverk hennar og vísað á lög um mannanöfn og samantekt um meginreglur mannanafnalaga.

Fyrsta spurning könnunarinnar var: Ert þú fylgjandi eða andvíg(ur) því að núgildandi reglur um mannanöfn verði rýmkaðar?

Mjög fylgjandi: 27%

Frekar fylgjandi: 33%

Hvorki fylgjandi né andvíg(ur): 19%

Frekar andvíg(ur): 13%

Mjög andvíg(ur): 7%

Nokkrir sögðust ekki vita eða vildu ekki svara.

Önnur spurning var: Að hve miklu leyti telur þú að reglur um mannanöfn eigi að vera rýmkaðar?

Þar sögðu 24% að engar reglur eigi að gilda um mannanöfn og 76% að einhverjar reglur eigi að gilda

Í þriðju spurningu voru þátttakendur beðnir að nefna dæmi um hvaða reglur eigi að gilda um mannanöfn á Íslandi. Þar tiltóku 160 svarendur ýmis atriði og sögu 87 að ekki megi gefa nafn sem gæti orðið til ama, 54 sögðu að nöfn verði að fallbeygjast og/eða falla að íslenskum málvenjum. Tveir til fimm nefndu atriði eins og að notast skuli við almenna skynsemi, ekki megi nota tölustafi eða merki í nöfnum og ekki nefna eftir hlutum eða vörumerkjum.

Næstu skref eru þau að setja fram tillögur að breytingum á reglum um mannanöfn. Hefur innanríkisráðherra í hyggju að leggja fram lagafrumvarp þar að lútandi á haustþingi og er nú unnið að frumvarpsgerð í ráðuneytinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka