Nú má heita Strympa og Doddi

Strympa á góðri stund.
Strympa á góðri stund. AFP

Manna­nafna­nefnd hef­ur samþykkt nokk­ur ný nöfn sem hafa verið færð á manna­nafna­skrá.

Kvenkyns eiginnöfnin eru Pálma, Octavia, Værð, Þyra, Olivía, Íviðja, Gjöll og Strympa.

Þá lagði nefndin blessun sína yfir karlkyns eiginnöfnin Armand, Óri og hið kunna gælunafn Doddi.

Að auki er nú heimilt að bera kynlausa eiginnafnið Apel.

Nefndin hafnaði aftur á móti kvenkyns eiginnöfnunum Leah og Talia sem hvorki eru talin rituð í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls né telst hefð fyrir í skilningi 1. gr. reglnanna.

Fjarlægur eða óviss möguleiki ekki nóg

Í umfjöllun sinni um kvenkyns eiginnafnið Strympa sagði nefndin hugsanlega reyna á ákvæði mannanafnalaga um að eiginnafn megi ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama.

Leit nefndin til tveggja dóma Héraðsdóms Reykjavíkur, annars vegar frá 19. desember 2013 í máli nr. E–1917/2013 (Reykdal) og hins vegar frá 24. apríl 2015 í máli nr. E-3607/2014 (Gests)

„Telja verður að í báðum þessum dómum sé beitt rýmkandi skýringu á ákvæðum laga nr. 45/1996 um mannanöfn. Þessi skýringarkostur verður fyrir valinu í þessum tveim dómum m.a. með hliðsjón af grunnreglum íslensk réttar um friðhelgi einkalífs, sbr. 71. gr. íslensku stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, sbr. 9. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995 og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

Við skýringu á 4. mgr. 5. gr. laganna verður að hafa hliðsjón af áðurnefndum grundvallarreglum um friðhelgi einkalífs, sbr. og áðurnefndir dómar Héraðsdóms Reykjavíkur. Fjarlægur eða óviss möguleiki á því að nafn verði nafnbera til ama er ekki nóg til þess að hafna því. Eiginnafnið Strympa verður því látið njóta vafans.

Til þess verður einnig að líta að mannanafnanefnd hefur ekki talið það girða fyrir að nafn komist á mannanafnaskrá þótt það eigi rætur að rekja til ævintýrapersóna, sjá t.d. úrskurð nefndarinnar frá 5. júlí 2013 í máli nr. 38/2013 (Þyrnirós).

Skilyrði 5. gr. laga nr. 45/1996 standa því ekki í vegi fyrir því að eiginnafnið Strympa (kvk.) verði fært á mannanafnaskrá,“ eins og segir í úrskurðinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert