„Stjórn Heimilis og skóla – landssamtaka foreldra fer fram á það við sveitarfélög landsins að gervigrasvellir sem þaktir eru gúmmíkurli úr dekkjum verði endurnýjaðir í ljósi upplýsinga um að dekkjakurl á fótboltavöllum innihaldi krabbameinsvaldandi efni.“ Þetta segir í ályktun stjórnar Heimilis og skóla. Í ályktuninni segir:
„„Foreldrar barna sem stunda fótbolta hafa orðið varir við svart kurl sem berst inn á heimilið með ungum fótboltaiðkendum og einnig litar þetta föt og húð barna. Börnin anda síðan að sér ögnum úr kurlinu. Dekkjakurl sem þetta inniheldur krabbameinsvaldandi efni og eru bandarísk ungmenni sem hafa alist upp á slíkum dekkjakurlsvöllum að greinast með krabbamein í auknum mæli, eins og lesa má í grein Morgunblaðsins um efnið frá 13. september sl.
Þórarinn Guðnason, hjartalæknir, sagði frá hættunum við notkun dekkjakurls í Læknablaðinu árið 2010 í kjölfar ályktunar aðalfundar Læknafélags Íslands þar sem hvatt var til þess að banna notkun dekkjakurls á íþrótta- og leiksvæðum. Þórarinn sagði m.a.: „Í dekkjakurli eru krabbameinsvaldandi efni og önnur eiturefni sem geta verið hættuleg fyrir börn og aðra iðkendur íþrótta á gervigrasvöllum.
Í ýmsum nágrannalöndum okkar er mælt með takmörkun á notkun dekkjakurls vegna þessara efna. Slíkar takmarkanir eru í Þýskalandi og Svíþjóð. Norðmenn hafa rannsakað nokkuð og bent á hættuna á umhverfisáhrifum af kurlinu á nærlendi gervigrasvalla. það er viðurkennt að í hjólbörðum eru ýmis eiturefni sem meðhöndla verður af varúð. Skýrar reglur eru til staðar um meðhöndlun og förgun ónýtra hjólbarða en þegar búið er að kurla dekkin niður og dreifa þeim á íþróttasvæði barna og unglinga gilda reglurnar ekki. Þó er ljóst að eiturefnin eiga mun greiðari leið út í umhverfið úr dekkjakurlinu en þegar þau eru bundin í heila hjólbarða.“
Kurlið er unnið úr ónýtum bíldekkjum og dreift á gervigrasvelli til að gera þá mýkri. Óþarfi er að taka áhættu með efni sem mögulega gætu skaðað fólk. Þórarinn Guðnason segir enn fremur: „Þetta er tvímælalaust krabbameinsvaldandi efni og norsk gögn sýna að þegar þetta er notað innanhúss veldur þetta asma. Það er dálítið skuggalegt að körlunum á gúmmíverkstæðunum er gert að nota hanska en börnunum okkar er boðið upp á að höndla þetta sem körlunum er gert að hlífa sér við.“
Við förum flví fram á það við stjórnendur sveitarfélaga landsins að unnið verði að því án tafar að endurnýja þá velli sem þaktir eru heilsuspillandi dekkjakurli svo börnin okkar geti leikið sér og þjálfað sína færni örugg og við heilsusamlegar aðstæður.““