Faðir Einars myndi hlusta á Atla

Einar Örn var myrtur í Öskjuhlíð í nóvember árið 2000.
Einar Örn var myrtur í Öskjuhlíð í nóvember árið 2000. Ernir Eyjólfsson

Birgir Örn Birgisson, faðir Einars Arnar Birgissonar sem myrtur var í Öskjuhlíð í nóvember árið 2000, segist vera tilbúinn að hlusta á Atla Helgason, morðingja sonar síns, vilji Atli tjá sig við hann um voðaverkið.

Sagði hann að það yrði forvitnilegt að heyra hvað hann hefði að segja. Fjölskyldan hefur ekki heyrt frá honum eftir að í ljós kom að hann hefði banað Einari.

Þetta kom fram í Íslandi í dag í kvöld. Í fréttum Stöðvar 2 kom fram að fjölskylda Einars ætli að senda yfirlýsingu til Lögmannafélagsins og lýsa yfir áhyggjum sínum yfir því að Atli sækist eftir að fá málflutningsréttindi á ný.  

Aðspurður sagði Birgir að fjölskyldan hefði aldrei velt fyrir sér hvort Atli myndi reyna að fá uppreist æru og sækjast eftir málflutningsréttindum á ný. Nefndi hann þó að á meðan á réttarhöldunum yfir Atla stóð hefði hann lagt inn réttindi sín og hefði það verið talið honum til málsbóta.

Fjölskyldan hefur ekki heyrt frá Atla en sagðist Birgir hafa haft fregnir af honum þegar hann var að hefja afplánun og hafi hann verið síkvartandi. Sagði hann aðspurður að sér fyndist ekkert óeðlilegt að Atli hefði í einhverri mynd reynt að sýna iðrun. „Mér sýnist hans dómgreind og siðferði óbreytt,“ sagði Birgir. Benti hann einnig á að fengi Atli málflutningsréttindi sín á ný gæti hann orðið dómari og leist honum ekki vel á það.

Frétt mbl.is: Senda yfirlýsingu vegna Atla

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert