Segir mál Atla Helgasonar sérstakt

Mál Atla verður tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur á morgun.
Mál Atla verður tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur á morgun. mbl.is

Ingimar Ingason, framkvæmdastjóri Lögmannafélags Íslands, segir mál Atla Helgasonar um niðurfellingu réttindasviptingar vera sérstakt réttarfarslega.

Atli hefur óskað eftir því að fá málflutningsréttindi sín að nýju en hann hefur lokið afplánun 16 ára dóms fyrir að hafa orðið Einari Erni Birgissyni að bana árið 2000. Hann fékk uppreist æru hjá innanríkisráðuneytinu skömmu fyrir áramót.

Frétt mbl.is: Atli fékk uppreist æru

„Þegar hann var sviptur málflutningsréttindum með refsidómi fór ákæruvaldið fram á það á sínum tíma. Það er enn með aðildina þegar kemur að þessu niðurfellingarferli núna,“ segir Ingimar.

Telur að Atli flytji málið fyrir héraðsdómi

Ingimar veit ekki betur en að Atli  fari með mál sitt fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur en fyrirtaka verður í málinu á morgun. „Það er öllum heimilt að fara með mál sín sjálfir fyrir dóm ef það varðar hagsmuni þeirra sjálfra og að dómarinn metur þá hæfa til að gæta hagsmuna sinna.“

Niðurstaðan líklega kærð til hæstaréttar

Hann telur óvíst hvort og þá hvenær stjórn Lögmannafélags Íslands fái beiðni Atla til umfjöllunar. Fyrst þurfi héraðsdómur að komast að niðurstöðu um það hvort lögmannalögin eigi við eða ekki. Hver sem sú niðurstaða verður má gera ráð fyrir að niðurstaða héraðsdóms verði kærð til Hæstaréttar Íslands.

Dómsmálið snýst um það hvort Atli þarf að afla sér málflutningsréttindi á nýjan leik eða ekki. Lögmannafélagið hefur þá túlkun að lögmannalögin gildi sem þýðir að hann þarf að sækja um meðmæli Lögmannafélagsins til að geta fengið réttindin.

Fjölskyldan ekki haft samband

Ingimar segir félagið ekki hafa verið í öðrum samskiptum við Atla vegna málsins en þau að hann hann hafi upplýst félagið um að hann hygðist láta reyna á niðurfellingu réttindasviptingarinnar fyrir dómi, auk þess sem hann hafi kynnt sjónarmið sín í málinu. Ingimar segir fjölskyldu Einars Arnar hafi ekki haft samband við félagið til að hafa áhrif á hvort Atli fái meðmæli félagsins til að geta fengið málflutningsréttindin að nýju.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert