Fyrirtaka í máli Atla Helgasonar fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Þar kom fram að krafa ákæruvaldsins sé sú að Atli fái ekki málflutningsréttindi sín aftur.
Stefnt er á að flytja málið í héraðsdómi 1. febrúar næstkomandi.
Atli var ekki viðstaddur fyrirtökuna. Björgvin Jónsson flutti málið fyrir hans hönd. Að sögn Huldu Elsu Björgvinsdóttur saksóknara lagði ákæruvaldið fram sín gögn. Einnig var lögð fram umsögn Lögmannafélags Íslands, svar frá innanríkisráðuneytinu og fleiri gögn.
Reiknað er með því að skýrsla verði tekin af Atla áður en málið verður flutt.
Dómsmálið snýst um það hvort Atli þarf að afla sér málflutningsréttindi á nýjan leik eða ekki.
Málið var þingfest í desember. Þá fékk ákæruvaldið frest til að taka afstöðu til kröfu Atla og afla gagna.
Lögmannafélag Íslands hefur þá túlkun að lögmannalögin gildi sem þýðir að hann þarf að sækja um meðmæli Lögmannafélagsins til að geta fengið réttindin.
Atli hefur óskað eftir því að fá málflutningsréttindi sín að nýju en hann hefur lokið afplánun 16 ára dóms fyrir að hafa orðið Einari Erni Birgissyni að bana árið 2000. Hann fékk uppreist æru hjá innanríkisráðuneytinu skömmu fyrir áramót.