Segir börn ekki njóta vafans

Skipt verður um gúmmíkurl á gervigrasvelli Fram í Úlfarsárdal á …
Skipt verður um gúmmíkurl á gervigrasvelli Fram í Úlfarsárdal á næsta ári. mbl.is/Ómar Óskarsson

Með því að hafa breytingar á undirlagi á gervigrasvöllum ekki í forgangi leyfir Reykjavíkurborg börnum ekki að njóta vafans varðandi mögulega skaðsemi dekkjakurls.

Þetta segir Freyr Hermannsson sem er í hópi foreldra sem hefur barist fyrir því að borgin skipti um undirlag á  gervigrasvöllum þar sem notast er við kurlið.

Frétt mbl.is: Gúmmíkurlið brotið til mergjar

Borgin ætlar að endurnýja níu gervigrasvelli á næstu fjórum árum, þar á meðal ætlar hún að láta skipta út SBR-gúmmíi á nokkrum þeirra. Skiptar skoðanir hafa verið um skaðsemi þess. Reykjavíkurborg segir að engar óhyggjandi sannanir séu fyrir því hvort kurlið sé hættulegt eða ekki.  Þess vegna verði því ekki skipti út eingöngu í einni aðgerð.

Frétt mbl.is: Skipt um gúmmí fyrir 100 milljónir

„Þarna er einfaldlega verið að seinka endurnýjun sem er löngu tímabær,“ segir Freyr.

Hann vill að endurnýjun vallanna gangi hraðar fyrir sig. Ekki eigi að dreifa þeim á næstu fjögur árin. „Í staðinn er borgin að forgangsraða öðrum verkefnum sem liggur ekki eins mikið á, eins og þrengingu Grensásvegar.“

Freyr segir að þrenging Grensásvegar eigi að vera aftar í …
Freyr segir að þrenging Grensásvegar eigi að vera aftar í forgangsröðinni. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Hann kveðst vera ánægður með að sveitarfélög víða um land hafi hlustað á foreldra varðandi dekkjakurlið, þar á meðal Kópavogur og Seltjarnarnes. Það sama hafi ekki verið uppi á teningnum hjá Reykjavíkurborg. Þrátt fyrir að hafa óskað margsinnis eftir fundum vegna málsins, m.a. hjá borgarstjóra, hafi aðeins tveir fulltrúar borgarinnar orðið við fundarbeiðni þeirra, eða fulltrúi frá Sjálfstæðisflokknum og Björn S. Blöndal, fulltrúi Bjartrar framtíðar.  

Frétt mbl.is: Þingsályktun um dekkjakurlið

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert