Reykjavíkurborg tilkynnti í fyrradag að skipt yrði um undirlagið á gervigrasvelli Víkinga í Fossvogi á þessu ári. Þá mundi verða skipt um undirlag á Fylkisvelli og KR-velli auk þess sem dekkjagúmmíi yrði skipt út fyrir annars konar gúmmí á Framvelli í Úlfarsárdal á næsta ári.
Nokkur umræða hefur skapast um notkun dekkjakurls þar sem það inniheldur skaðleg efni. Ekki hefur tekist að sýna fram á orsakasamband á milli notkunar dekkjakurls og heilsubrests, en rannsakendur hafa ekki útilokað að svo geti verið.
Nýlega hófst t.a.m. umfangsmikil þriggja ára rannsókn á kurlinu í Kaliforníu í Bandaríkjunum. Fyrir vikið hefur stór hópur foreldra í Reykjavík gert kröfu um að dekkjakurli verði skipt út á öllum völlum á landinu. Kristinn Wium, einn forsvarsmanna hópsins, telur að umræddar framkvæmdir gangi of skammt og telur borgina sýna áhyggjum foreldra tómlæti. „Við höfum reynt að fá áheyrn borgarstjóra frá 12. október. Því erindi hefur ekki verið sinnt. Af einhverjum ástæðum þótti ekki ástæða til að hitta okkur foreldrana,“ segir Kristinn.