Börn eins og námugraftrarmenn

Mynd af sótsvörtu barni eftir æfingu á gervigrasvelli.
Mynd af sótsvörtu barni eftir æfingu á gervigrasvelli. Mynd/Aðsend

Hópur foreldra, sem hefur barist fyrir því að Reykjavíkurborg skipti um undirlag á gervigrasvöllum þar sem notast er við dekkjakurl, hefur lagt fram greinargerð fyrir Alþingi vegna málsins.

Þar kemur fram að þegar kurlið er flutt inn til landsins er það skilgreint sem úrgangur. Þegar því er sturtað á gervigrasvelli og leiksvæði telst það aftur á móti vera endurvinnsla. Um endurvinnslu gilda reglur sem kveða á um að meðhöndlun „skal vera með þeim hætti að óþrifnaður og óþægindi stafi ekki af“. Notkun dekkjakurlsins hafi engu að síður verið leyft að viðgangast og sé því mögulega brot á reglugerð Umhverfisráðuneytisins um meðhöndlun úrgangs. 

Alþingi bað um greinargerðina

Alþingi óskaði eftir greinargerðinni vegna þingsályktunartillögu sem var lögð fram á síðasta ári um að umhverfis- og auðlindaráðherra setji  bann við notkun gúmmíkurls úr dekkjum á leik- og íþróttavöllum. Einnig skuli ráðherra móta áætlun sem miði að því að gúmmíkurli úr dekkjum verði skipt út fyrir hættuminni efni á þeim leik- og íþróttavöllum þar sem það er nú að finna. Því verki verði lokið fyrir árslok 2016.

Mikil umræða hefur verið uppi um dekkjakurl á gervigrasvöllum.
Mikil umræða hefur verið uppi um dekkjakurl á gervigrasvöllum. mbl.is/Ómar Óskarsson

Umhverfissóðaskapur

„Ef einhversstaðar er hægt að tala um umhverfissóðaskap þá er hann á gervigrasvöllum barnanna okkar í dag. Í dekk eru sett efni til þess að gefa þeim eiginleika sem eru óþörf á gervigrasvelli. Loks er sett í dekkin sót sem lætur börnin okkar líta út eins og námugraftrarmenn. Sótið gerir okkur kleift að sjá hversu mikil snerting barnanna er við dekkjakurlið og efnið sem úr þeim losna,“ segir í greinargerðinni.

Frétt mbl.is: Segir börn ekki njóta vafans

Engin þörf á efninu

„Í dekk er sett sót sem gerir dekkin sótsvört og veldur bremsuförum. Er sótið (e. Carbon black) notað sem fylliefni og er tæp 35-40% af dekkjakurli. Engin þörf er á þessu efni á gervigrasvöllum en það veldur miklum óþrifnaði og óþægindum, sérstaklega fyrir börn. Það sem er hins vegar verra er að efnið er talið krabbameinsvaldandi af alþjóðlegu krabbameinsrannsóknarstofnuninni, International Agency for Research on Cancer," segir einnig í greinargerðinni. 

Frá íbúafundi í Frostaskjóli í fyrra þar sem fulltrúar borgarinnar …
Frá íbúafundi í Frostaskjóli í fyrra þar sem fulltrúar borgarinnar ræddu við foreldra barna í knattspyrnu um dekkjakurl á gervigrasvöllum. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Vísað er í lög um meðhöndlun úrgangs frá árinu 2003. Þau hafa það að markmiði að „tryggja að úrgangsstjórnun og meðhöndlun úrgangs fari þannig fram að … ekki skapist hætta fyrir heilbrigði manna og dýra og umhverfið verði ekki fyrir skaða.”

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert