Ólafur Loftsson, formaður Félags grunnskólakennara, telur fráleitt að foreldri nemanda í Kelduskóla stefni kennara vegna þess að hann lét nemendur hreinsa klaka af gervigrasvelli sem lagður er dekkjakurli.
Ingvar Guðmundsson, faðir stúlku í Kelduskóla, íhugar að stefna kennara við skólann vegna vanrækslu. Nemendur voru látnir brjóta upp ís á gervigrasknattspyrnuvelli skólans. Völlurinn er þakinn dekkjakurlsgúmmíi en fluttar hafa verið fjölmargar fréttir á síðustu vikum um hugsanleg heilsuspillandi áhrif dekkjakurlsins. Skólastjóri Kelduskóla segir börnin hafa haft frumkvæði að hreinsuninni. Kemur þetta fram á vef Ríkisútvarpsins.
„Langoftast er það þannig, t.d. í þessu máli, að ef úr verður að kennaranum verði stefnt, sem í raun væri fráleitt, þá væntanlega leitar hann til okkar og við skoðum hvaða aðstoð við getum veitt honum. Mér finnst samt Reykjavíkurborg búin að afgreiða málið í þeirri merkingu að ef einhver verður dæmdur vegna hreinsunarinnar, þá verða það tæplega kennararnir, þar sem Reykjavíkurborg er opinberlega búin að samþykkja verknaðinn. Ég hugsa að Reykjavíkurborg beri því frekar ábyrgðina, sé hún til staðar,“ segir Ólafur.
Kennarinn hafi starfað samkvæmt reglum borgarinnar, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.
Ólafur kveðst ekki muna eftir neinu dæmi um að kennara hafi verið stefnt vegna vanrækslu.