Foreldrafélag og fulltrúar foreldra í skólaráði Kelduskóla lýsa yfir stuðningi við kennara og skólastjórnendur Kelduskóla og standa „heilshugar á bakvið það jákvæða starf sem fram fer í skólanum.“ Þetta kemur fram í tilkynningu frá foreldrafélaginu en þar segir jafnframt að félagið harmi fréttaflutning fjölmiðla vegna ásakana um vanrækslu kennara í skólanum.
Í Morgunblaðinu í dag er rætt við foreldra barns í skólanum sem hafði sagst „vera með það til skoðunar“ að kæra kennara í skólanum fyrir vanrækslu í kjölfar þess að skólabörn voru látin hreinsa klaka af sparkvelli sem lagður er dekkjakurli.
Í samtali við Morgunblaðið í dag sagðist hann ekki ætla að láta verða af því að stefna kennaranum en gagnrýndi skólayfirvöld harðlega.
Í yfirlýsingu foreldrafélagsins, sem var lesin upp á fundi þess með bekkjarfulltrúum Kelduskóla og var samþykkt einróma, kemur fram að félagið telji að lýðræðislegir starfshættir sem gefa börnum tækifæri til að láta til sín taka í umhverfi sínu og samfélagi sé af hinu góða.
„Vissulega hafa foreldrar áhyggjur af skaðsemi dekkjakurls en treysta þeim fagaðilum sem hafa með málið að gera til þess að koma með leiðbeinandi niðurstöður sem fyrst. Að lokum viljum við benda á að umræða um skaðsemi dekkjakurls á ekki að vera á kostnað eins kennara og/eða skóla heldur er þetta mál sem varðar allt skólasamfélagið í heild sem og íþróttafélög,“ segir í yfirlýsingunni.