Höskuldur Þórhallsson, formaður umhverfis– og samgöngunefndar, segir að upplýsingar sem komu fram á fundi nefndarinnar í morgun í tengslum við dekkjakurl hafi verið sláandi.
„Okkur var bent á það með mjög sannfærandi rökum að um verulega heilsuspillandi efni er um að ræða og að sönnunarbyrðin í þessum málum á að vera öfug. Þeir sem taka ákvarðanir um að leggja þetta dekkjakurl á velli verða að sýna fram á að þetta sé ekki heilsuspillandi,“ segir Höskuldur.
Fulltrúar frá Læknafélagi Íslands, hópnum Nýjan völl án tafar. Öll dekkjakurl til grafar, Astma- og ofnæmisfélagi Íslands og Umboðsmanni barna sátu fundinn.
„Ég verð að gagnrýna þau sveitarfélög sem hafa ekki tekið alvarlega á þessu máli. Við verðum að gera mikinn skurk í því að tæma gervigrasvelli þjóðarinnar af dekkjakurli.“
Frétt mbl.is: Börn eins og námugraftrarmenn
Höskuldur segir að umhverfis- og samgöngunefnd muni leita allra leiða til að fá sveitarfélög landsins til að fjarlægja á tafar dekkjakurl sem innihaldi efni sem eru heilsuspillandi á knattspyrnuvöllum á landinu.
Hann er ánægður með fréttirnar sem nýverið bárust um að yfirvöld í Kópavogi og á Seltjarnarnesi ætli að fjarlægja dekkjakurl af knattspyrnuvöllum sínum á þessu ári.
Reykjavíkurborg ætlar að endurnýja gervigrasvelli sína á næstu fjórum árum, þar á meðal að skipta um dekkjakurl. Hún segir að kurlinu verði ekki skipt strax út vegna þess að engar óyggjandi sannari liggi fyrir um það hvort það sé hættulegt eða ekki.
Frétt mbl.is: Skipta um gúmmí fyrir 100 milljónir
„Ég verð að gagnrýna orð borgarstjóra um að Reykjavíkurborg hafi verið að standa sig vel. Þau gögn sem voru lögð á borðið fyrir framan okkar sýna svart á hvítu að svo er ekki. Fullyrðingar um að ekki hafi verið lagt dekkjakurl með heilsuspillandi efnum eftir 2010 virðast t.d. beinlínis vera rangar eða villandi,“ segir Höskuldur.
„Við verðum að gera þær kröfur til borgarinnar að hún taki til eftir sig og ráðist strax í aðgerðir til að losna við þessa óværu af völlunum. Börnin eiga að njóta vafans.“