Formaður Astma- og ofnæmisfélags Íslands hefur sent fyrirspurnir til nágrannalanda Íslands varðandi möguleg skaðsemisáhrif af völdum dekkjakurls.
„Ég hlakka til að sjá hvernig þetta lýtur að þeim,“ segir Fríða Rún Þórðardóttir. „Við höfum ekki verið að fá inn á borð til okkar fyrirspurnir eða tilkynningar um aukningu á astma í tengslum við þessa velli en við erum að viða að okkur gögnum og kynna okkur hvað er að gerast á hinum Norðurlöndunum, hvort það sé mikið um tilkynningar í okkar systursamtökum.“
Að sögn Fríðu Rúnar hefur Astma- og ofnæmisfélag Íslands komið glænýtt inn í umræðuna um dekkjakurlið og fundað með foreldrum og læknum.
Þó svo að enn hafi engar tilkynningar eða fyrirspurnir borist til félagsins vegna slæmra áhrifa af völdum dekkjakurls segir Fríða Rún að nauðsynlegt sé að hafa vaðið fyrir neðan sig. „Við verðum alltaf að láta börnin njóta vafans. Þetta er mjög áhugavert málefni sem kemur okkur öllum við hvort sem við erum í Reykjavík eða annars staðar á landinu,“ segir hún.
„Við trúum því að þetta sé ekki heilsusamlegt og við verðum að bregðast við sem fyrst og það á réttan máta.“