Barkaígræðslulæknir rekinn

Aðgerðin á Beyene var gerð á Karolinska sjúkrahúsinu í Stokkhólmi.
Aðgerðin á Beyene var gerð á Karolinska sjúkrahúsinu í Stokkhólmi.

Karólínska sjúkrahúsið í Stokkhólmi hefur rekið ítalska lækninn Paolo Macchiarini. Ástæðurnar sem gefnar eru í yfirlýsingu frá sjúkrahúsinu eru meðal annars þær að Macchiarini hafi skaðað orðspor þess en hann gerði umdeildar barkaígræðsluaðgerðir sem íslenskir læknar tóku meðal annars þátt í.

Í yfirlýsingunni frá Karólínska segir að Macchiarini hafi hagað sér og gert rannsóknir sem samræmast ekki störfum hans fyrir sjúkrahúsið. Þar eru nefnd störf hans á sjúkrahúsi í Rússlandi þar sem kona lést eftir að skurðlæknirinn græddi í hana nýjan barka og eru þau sögð brjóta gegn grundvallargildum Karólínska og hafa skaðað orðspor sjúkrahússins.

Þá segir þar að ítalski læknirinn hafi ekki veri sannsögull og hreinskilinn um störf sín utan sjúkrahússins og skilað inn fölskum eða misvísandi upplýsingum í ferilskrá sinni. Hann hafi verið talinn sekur um vanrækslu árið 2015.

„Hann hefur hagað sér á hátt sem hefur haft sorglegar afleiðingar fyrir fólkið sem varð fyrir því og fjölskyldum þeirra. Framferði hans hefur skaðað verulega traust á Karólínska sjúkrahúsinu og á rannsóknum almennt,“ er haft eftir Mats Engelbrektson, mannauðsstjóra sjúkrahússins.

Anders Hamsten, rektor sjúkrahússins, sagði af sér í síðasta mánuði vegna hneykslisins í kringum barkaígræðslur Macchiarini. Hann hafði hreinsað Macchiarini af ásökunum um misferli í starfi þrátt fyrir að rannsókn á vegum sjúkrahússins hafi talið hann hafa gerst sekan um slíkt.

Aðgerðin sem um ræðir vakti mikla athygli árið 2011 en í henni var plastbarki baðaður stofnfrumum græddur í Erítre­umanninn Andemariam T. Beyene sem var á þeim tíma nemandi við Háskóla Íslands og glímdi við banvænt krabbamein í hálsi. Hann lést í kjölfarið og hóf saksóknari í Svíþjóð rannsókn á því máli.

Tómas Guðbjartsson, prófessor í skurðlækningum við Háskóla Íslands, var meðal þeirra sem komu að aðgerðinni og var meðhöfundur vísindagreinar um málið sem birtist í hinu virta tímariti Lancet. Auk hans tók Óskar Einarsson þátt í meðferð Beyene.

Macchiarini gerði fleiri slíkar aðgerðir en í flestum tilfellum létust sjúklingarnir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert